Fótbolti

Mikil­væg stig í súginn hjá Bayern

Smári Jökull Jónsson skrifar
Bayern Munchen tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttunni í kvöld.
Bayern Munchen tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttunni í kvöld. Vísir/Getty

Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í Bayern Munchen töpuðu mikilvægum stigum gegn næst neðsta liði þýsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Glódís Perla var á sínum stað í byrjunarliði Bayern sem fyrir leikinn var í efsta sæti deildarinnar, einu stigi á undan Wolfsburg sem mætir Werder Bremen á morgun.

Búist var við þægilegum sigri Bayern enda Nurnberg í næst neðsta sæti deildarinnar með aðeins fjögur stig eftir níu umferðir. Svo fór hins vegar ekki. Lea Schuller tók vissulega forystuna fyrir Bayern strax á 11. mínútu leiksins en Nurnberg tókst að jafna í síðari hálfleiknum með marki Medina Desic úr vítaspyrnu.

Bayern átti meira en tuttugu marktilraunir í leiknum en náði engu að síður ekki að bæta við marki. Lokatölur 1-1 og mikilvæg stig í súginn hjá liði Glódísar Perlu en hún náði sér í gult spjald í leiknum. 

Wolfsburg getur náð toppsætinu með sigri á morgun en Sveindís Jane Jónsdóttir hefur verið fjarverandi hjá Wolfsburg síðustu vikur vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×