Fótbolti

Karó­lína skoraði er Leverkusen komst aftur á sigurbraut

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Karólína Lea skoraði fyrsta mark Bayer Leverkusen í kvöld.
Karólína Lea skoraði fyrsta mark Bayer Leverkusen í kvöld. ANP/Getty Images

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom Bayer Leverkusen á bragðið er liðið vann langþráðan 4-1 sigur gegn botnliði Duisburg í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Karólína kom heimakonum yfir strax á fimmtu mínútu leiksins með góðu marki áður en Natalie Rose Muth jafnaði metin fyrir gestina stuttu fyrir hálfleik og staðan var því 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Kristin Kogel kom Leverkusen þó yfir á nýjan leik með marki eftir rétt rúmlega klukkutíma leik áður en Nikola Karczewska kom heimakonum í 3-1 sjö mínútum síðar.

Verena Wieder gerði svo endanlega út um leikinn með marki á fimmtu mínútu uppbótartíma og þar við sat.

Niðurstaðan því 4-1 sigur Bayer Leverkusen sem var án sigurs í síðustu fjórum leikjum. Liðið situr nú í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig eftir tíu leiki, sjö stigum á eftir toppliði Bayern München. Duisburg situr hins vegar enn á botninum með aðeins tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×