Fótbolti

„Herra Haugesund“ hættir eftir 30 ár til að gefa Óskari Hrafni vinnu­frið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson er tekinn við þjálfun Haugesund liðsins.
Óskar Hrafn Þorvaldsson er tekinn við þjálfun Haugesund liðsins. Vísir/Hulda Margrét

Haugesund tilkynnti í gær að „Herra Haugesund“ hafi ákveðið að segja þetta gott og hætta hjá félaginu til að gefa nýju þjálfarateymi fullkominn vinnufrið.

Jostein Grindhaug er hættur hjá félaginu eftir þrjátíu ár. Hann var mjög lengi leikmaður félagsins, hefur þjálfað það í tveimur törnum og inn á milli starfaði hann sem yfirmaður knattspyrnumála í þrjú ár. Haugesund segir frá þessu á heimasíðu sinni.

Grindhaug var leikmaður félagsins frá 1993 til 2007 fyrir utan eitt tímabil með SK Nord. Grindhaug þjálfaði Haugesund fyrst 2009 til 2015 og svo aftur frá 2019 og þangað til í september síðastliðnum. Alls var hann þjálfari félagsins í tólf tímabil.

Fréttin um Jostein Grindhaug á heimasíðu Haugesund.fkh.no

Grindhaug hætti að þjálfa liðið eftir 2-1 tap á móti Molde í 21. umferð. Sancheev Manoharan tók þá við tímabundið og kláraði síðustu tvo mánuðina á tímabilinu. Síðan þá hefur Grindhaug starfað sem ráðgjafi en nú er hann alveg hættur.

Óskar Hrafn tók við liði Haugesund 1. nóvember síðastliðinn. Liðið endaði í tólfta sæti í norsku deildinni á síðasta tímabili en var í smá fallhættu undir lokin.

„Aðdragandinn er sá að Joe trúir því að það sé best fyrir framtíð félagsins að nýir menn í þjálfarateyminu fái hreinan skjöld og séu lausir við öll áhrif frá manni sem hefur verið hér svona lengi, sagði Christoffer Falkeid, stjórnarmaður FK Haugesund.

Óskar Hrafn kom með nýja fótboltamenningu inn í Breiðabliksliðið á sínum tíma og þetta ætti að auðvelda honum að endurtaka leikinn hjá Haugesund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×