Fótbolti

For­setinn sló dómarann í and­litið og öllum fót­bolta­leikjum frestað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Faruk Koca, forseti Ankaragucu, slær hér niður Halil Umut Meler dómara.
Faruk Koca, forseti Ankaragucu, slær hér niður Halil Umut Meler dómara. Getty/Emin Sansa

Tyrkneska knattspyrnusambandið hefur stöðvað allar deildi í landinu eftir skammarlegt kvöld fyrir tyrkneska fótboltann.

Faruk Koca, forseti Ankaragucu liðsins, sló þá niður dómara leiks liðsins á móti Rizespor í tyrkensku úrvalsdeildinni.

Koca ruddist inn á leikvöllinn eftir að lokaflautið gall og sló niður dómarann Halil Umut Meler sem steinlá í grasinu. Dómarinn fékk stórt glóðarauga á eftir.

Rizespor hafði skorað jöfnunarmark leiksins á sjöundu mínútu í uppbótatíma.

Stuðningsmenn Ankaragucu brutu sér líka leið inn á leikvanginn eftir leikinn og það var líka sparkað í Meler þegar hann lá í grasinu. Meler komst á endanum til búningsklefa með aðstoð lögreglunnar.

Það stóð ekki á viðbrögðum frá tyrkneska sambandinu því það gaf út yfirlýsingu á samfélagsmiðlum þar sem tilkynnt var að öllum leikjum í öllum deildum væri frestað um óákveðinn tíma.

„Félaginu, stjórnarformanninum, forráðamönnum félagsins og öllum þeim sem urðu sekir um það að ráðast á dómarann verður refsað með ströngustu viðurlögum,“ segir í tilkynningu sambandsins.

Koca forseti hefur verið settur í farbann af innanríkisráðherranum Ali Yerlikaya og þetta verður ekki aðeins mál í fótboltaheiminum heldur endar það örugglega fyrir dómstólum líka.

Meler er 37 ára gamall og hefur verið FIFA-dómari síðan árið 2017. Hann dæmdi meðal annars leik Lazio og Celtic í Meistaradeildinni 28. nóvember síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×