Innlent

Fjórar vikur frá rýmingu: Enn ó­víst hve­nær fólk flytur heim

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fannar Jónasson er bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson er bæjarstjóri Grindavíkur. Vísir/Arnar

Fjórar vikur eru síðan Grindavíkurbær var rýmdur. Einhverjir bæjarbúar vilja komast heim en bæjarstjórinn segir það enn ekki vera orðið fullkomlega öruggt. 

Í gær voru fjórar vikur síðan Grindavíkurbær var rýmdur vegna eldgosahættu á svæðinu. Síðan þá hefur skjálftum á svæðinu fækkað gríðarlega og minni líkur á að kvika komi skyndilega upp á land líkt og mikil hætta var á.

Reglurnar eru nú þannig að Grindvíkingar fá að vera í bænum frá klukkan sjö á morgnanna til fimm á daginn. Nokkrir íbúar sem fréttastofa hefur rætt við vilja þó fá að komast heim ótímabundið. Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir flesta þó ekki taka neina áhættu.

„Það eru örugglega lang flestir Grindvíkingar sem vilja fara heim þegar það er talið óhætt fyrir þá að fara heim. Það er meðvitað hjá langflestum að það verður ekki gert fyrr en að öryggi sé gætt eins og hægt er,“ segir Fannar. 

Síðustu daga hefur verið unnið að því að fylla í sprungur sem hafa myndast í bænum. Fannar segir að það verkefni gangi vel.

„Langstærsta verkefnið er um miðbik bæjarins þar sem er stór og mikill skurður sem verið er að leggja nýja fráveitulögn í. Það er gert ráð fyrir því að eftir viku verði þeim framkvæmdum væntanlega lokið. Veðráttan vinnur mjög með okkur í þessu efni. Svo eru smá viðgerðir hér og þar sem verið er að vinna í jöfnum höndum,“ segir Fannar. 

Hann bendir á að á meðan sprungurnar séu á svæðinu, og enn nýjar sprungur að myndast, sé ekki fullkomlega öruggt fyrir íbúa að vera á svæðinu.

„Það veit enginn um framtíðina en það er heldur ekki hægt að svara því til hvenær það verður talið óhætt að fara inn í bæinn. Alls ekki víst hvenær hægt er að fara að gista. Það er allt gert með öryggi íbúanna í huga hvenær talið verður óhætt að ganga skrefinu lengra í því efni. Það er mikið verið að tala um jólin í þessu sambandi og það er of snemmt að svara því. Það er enn landris við Svartsengi og menn bíða eftir því hvað gerist í næstu viku,“ segir Fannar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×