Innlent

Klám­plága og kyn­ferðis­legt of­beldi tröll­ríður Akur­eyri

Jakob Bjarnar skrifar
Hildu Jönu varð illa brugðið þegar hún fór í saumana á nýrri rannsókn sem leiðir í ljós að mikill fjöldi stúlkna í 10. bekk kannist við það sem kalla má kynferðisleg áreitni og jafnvel ofbeldi.
Hildu Jönu varð illa brugðið þegar hún fór í saumana á nýrri rannsókn sem leiðir í ljós að mikill fjöldi stúlkna í 10. bekk kannist við það sem kalla má kynferðisleg áreitni og jafnvel ofbeldi. vísir/vilhelm

Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri, ætlar að óska eftir umræðu í bæjarstjórn um niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar. Í kjölfarið vill hún leggja fram tillögur um áætlun til að sporna við fótum gegn kynferðisofbeldi sem er algengara á Akureyri en annars staðar.

Hilda Jana lagðist yfir rannsóknina og henni var brugðið þegar henni varð ljóst hversu illa unglingar á Akureyri eru að koma út úr rannsókninni. Íslenska æskulýðsrannsóknin er rannsókn sem HÍ annaðist fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið. Markmiðið: Að safna gögnum um velferð og viðhorf barna.

Rannsóknin leiðir í ljós slæma stöðu í málaflokknum.

„Í rannsókninni kemur m.a. fram að 20% stúlkna í 10. bekk í grunnskólum Akureyrarbæjar svari því að þær hafi upplifað að annar unglingur hafi haft munnmök eða samfarir við þær gegn þeirra vilja. Ein af hverjum fimm!“ skrifar Hilda Jana í grein sem hún birtir á Akureyri.net.

Hildu Jönu er brugðið. Hún bendir á að ef önnur landsvæði en Norðurland eystra eru skoðuð er sambærilegt hlutfall 14 prósent. „Í dag er nauðgun skilgreind í lagalegu samhengi út frá samþykki sem þýðir að ef samræði eða önnur kynferðismök eru höfð við manneskju án samþykkis þá er um nauðgun að ræða.“

Bæjarfulltrúinn heldur áfram að rekja niðurstöður sem sjá má í rannsókninni. 22 prósent stúlkna 10. bekkjar grunnskóla Akureyrarbæjar segjast hafa upplifað að einstaklingur sem er að minnsta kosti fimm árum eldri eða fullorðinn hafi káfað á þeim. Til samanburðar eru þessar tölur 17 prósent ef litið er til annarra landsvæða.

„Þá segjast 12% stúlkna í 10.bekk í grunnskólum Akureyrarbæjar hafa upplifað að einstaklingur a.m.k 5 árum eldri en þær hafi reynt að hafa samfarir eða munnmök við þær, hlutfallið á öðrum landsvæðum er 9%. 7% stúlkna í 10.bekk í grunnskólum Akureyrarbæjar segjast hafa upplifað að einstaklingur a.m.k. 5 árum eldri en þær hafi haft munnmök eða samfarir við þær, en 4% stúlkna á öðrum landsvæðum,“ skrifar Hilda Jana.

Þá segjast 64 prósent stúlkna í grunnskólum Akureyrarbæjar að þær hafi verið beðnar um að senda af sér nektarmyndir. Hilda Jana ætlar að taka málið upp í bæjarstjórn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×