Fótbolti

Heimir mætir ekki Messi nema með því að komast upp úr riðlinum

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Hallgrímsson hefur verið að gera góða hluti sem þjálfari Jamaíku sem spilar á Copa America næsta sumar.
Heimir Hallgrímsson hefur verið að gera góða hluti sem þjálfari Jamaíku sem spilar á Copa America næsta sumar. Getty/Matthew Ashton

Nú er orðið ljóst hvaða liðum lærisveinar Heimis Hallgrímssonar, í jamaíska karlalandsliðinu í fótbolta, mæta á Copa America næsta sumar.

Heimir og hans menn komust inn á mótið með því að slá út Kanada í spennandi einvígi þar sem 3-2 útisigur dugði Jamaíku eftir 2-1 tap á heimavelli. Þetta verður aðeins í þriðja skiptið sem Jamaíka er með á Copa America en að þessu sinni spila þar 10 lið úr Suður-Ameríku og sex sem tilheyra Mið- og Norður-Ameríku.

Jamaíka dróst í nótt í B-riðil mótsins með Mexíkó, Ekvador og Venesúela. Heimsmeistarar Argentínu, með Lionel Messi í broddi fylkingar, eru svo á meðal þeirra liða sem Jamaíka gæti mætt komist liðið upp úr riðlinum. 

Tvö efstu lið hvers riðils komast í átta liða úrslit og gæti Jamaíka mætt þar Argentínu, Perú eða Síle, eða sigurliðinu úr einvígi Kanada og Trínidad og Tóbagó sem berjast enn um að komast á mótið.

Brasilíumenn eru í D-riðli með Kólumbíu, Paragvæ og sigurliðinu úr einvígi Hondúras og Kosta Ríka. Í C-riðli eru svo Bandaríkin, sem verða á heimavelli á mótinu, Úrúgvæ, Panama og Bólivía.

Copa America fer fram víða um Bandaríkin og verður spilað dagana 20. júní til 14. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×