Fótbolti

Drukku meira en þær máttu

Sindri Sverrisson skrifar
Natasha Anasi og stöllur hennar í Brann hafa unnið báða leiki sína í  riðlakeppninni í Meistaradeild Evrópu til þessa í vetur. Ekki hefur verið greint frá því hvaða leikmenn liðsins drukku meira en leyfilegt var á mánudagskvöld.
Natasha Anasi og stöllur hennar í Brann hafa unnið báða leiki sína í riðlakeppninni í Meistaradeild Evrópu til þessa í vetur. Ekki hefur verið greint frá því hvaða leikmenn liðsins drukku meira en leyfilegt var á mánudagskvöld. EPA-EFE/CHRISTIAN BRUNA

Forráðamenn norska knattspyrnufélagsins Brann hafa varað leikmenn sína við eftir að nokkrir af leikmönnum kvennaliðs félagsins drukku meira áfengi en leyft var á fögnuði í fyrrakvöld.

Leikmenn bæði kvenna- og karlaliðs Brann komu saman í veislu á mánudaginn í kjölfar þess að tímabilið kláraðist hjá karlaliðinu á sunnudaginn. Konurnar eru hins vegar ekki komnar í jólafrí því þær eiga enn eftir tvo leiki í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu áður en að því kemur.

Aleksander Olsen, yfirmaður íþróttamála hjá Brann, segir að aðeins nokkrir leikmenn kvennaliðsins hafi drukkið meira en eitt vínglas eins og leyfilegt var með matnum. 

Ekki kemur fram hvaða leikmenn er þar um að ræða. Einn íslenskur leikmaður er á mála hjá Brann en það er hin 32 ára gamla Natasha Anasi, fyrrverandi leikmaður Breiðabliks, Keflavíkur og ÍBV, sem nýverið byrjaði að spila aftur með Brann eftir meiðsli.

„Þarna var farið aðeins yfir strikið. Við tökum því alvarlega. Á sama tíma er samt mikilvægt að undirstrika að það var ekkert fyllerí í gangi,“ sagði Olsen við Bergens Tidende um það sem gerðist á mánudagskvöld.

„Það verður brugðist við þessu gagnvart þeim sem áttu í hlut. Við munum fara betur yfir þær kröfur og væntingar sem gerðar eru til þeirra sem spila fyrir Brann. Það mikilvægasta fyrir okkur er að þetta endurtaki sig ekki,“ sagði Olsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×