Fótbolti

Ein­kunnir Ís­lands: Full­komin frum­raun hjá á­tján ára ný­liða

Íþróttadeild Stöðvar 2 og Vísis skrifar
Fanney Inga Birkisdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir faðmast eftir frábæra frammistöðu í Viborg í kvöld.
Fanney Inga Birkisdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir faðmast eftir frábæra frammistöðu í Viborg í kvöld. EPA-EFE/Johnny Pedersen

Hin átján ára gamla Fanney Inga Birkisdóttir, fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir og markaskorarinn Karólína Lea Vilhjálmsdóttir stóðu upp úr í fræknum 1-0 sigri Íslands gegn Danmörku í kvöld.

Ísland gerði Danmörku risastóran grikk með sigrinum, og réttu Þýskalandi hjálparhönd, því Danir hefðu með sigri getað náð efsta sæti riðilsins og komist í úrslit Þjóðadeildarinnar í fótbolta, með möguleika á ólympíusæti.

Fanney Inga og Glódís stóðu upp úr aftast á vellinum í þéttri vörn íslenska liðsins sem sá til þess að færi Dana yrðu ekki nægilega góð, og Karólína sýndi á ný sínar bestu hliðar eins og hún gerði á EM í Englandi í fyrra.

Einkunnir íslenska liðsins í kvöld má sjá hér að neðan.

Einkunnir Íslands:

Fanney Inga Birkisdóttir, markvörður: 9

Svo til fullkomin frumraun hjá þessum 18 ára gamla markverði Vals sem öðlast hefur hellings reynslu á þessu tímabili, meðal annars í lokakeppni EM U19. Fanney Inga var öryggið uppmálað allan leikinn, óhrædd við að spila boltanum stutt á samherja þegar það var hægt og við að rífa til sín lausa bolta í teignum. Þurfti sjaldan að verja erfið skot en átti eina frábæra markvörslu.

Guðný Árnadóttir, hægri bakvörður: 6

Að mestu örugg í varnarleiknum en mögulega ekki rétt staðsett í sumum tilvikum þegar verjast þurfti fyrirgjöfum frá hinum kantinum. Skilaði litlu fram á við eins og mátti svo sem búast við í svona leik.

Guðrún Arnardóttir, hafsent: 7

Gerði engin mistök í vörninni og passar vel saman með Glódísi í miðri vörninni. Saman sáu þær til þess að stöðva fjölda sókna Dana.

Glódís Perla Viggósdóttir, hafsent: 9

Yfirburðamaður í varnarleiknum og raunar í algjörum heimsklassa. Alltaf mætt á réttan stað og ef boltinn kemur í loftinu inn í vítateiginn þá skallar Glódís hann, eða þannig var það alla vega í kvöld. Var nálægt því að skora í fyrri hálfleik, með skalla.

Sædís Rún Heiðarsdóttir, vinstri bakvörður: 6

Ekki alltaf rétt tengd í varnarleiknum en olli engum stórslysum. Það var þó helst að einhverjar glufur mynduðust í vörninni hennar megin. Átti frábæra sendingu á Karólínu í markinu.

Selma Sól Magnúsdóttir, miðjumaður: 7

Búin að festa sig vel í sessi á miðjunni hjá íslenska liðinu, lætur alltaf finna vel fyrir sér og skilaði boltanum ágætlega frá sér.

Alexandra Jóhannsdóttir, miðjumaður: 6

Fékk tækifæri í byrjunarliðinu og stóð sig ágætlega en hefði mátt skila meiru fram á við. Gefur ekkert eftir í návígjum.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, framliggjandi miðjumaður: 8

Fengum að sjá þá Karólínu sem hefur verið svo frábær í þýsku deildinni í vetur. Hún var sérstaklega áberandi í fyrri hálfleiknum og ógnandi fram á við, og nýtti svo eina tækifærið sitt í seinni hálfleik til að skora sigurmarkið.

Agla María Albertsdóttir, hægri kantur: 6

Nálægt því að skora með góðu skoti í fyrri hálfleiknum en annars ekki mjög áberandi í leiknum. Studdi þó vel við í varnarleiknum.

Diljá Ýr Zomers, vinstri kantur: 5

Ekki alveg nógu vel tengd við liðsfélagana í kvöld, bæði í vörn og sókn, og náði ekki alveg að fylgja eftir frammistöðunni gegn Wales þar sem hún skoraði á föstudaginn.

Hlín Eiríksdóttir, framherji: 6

Barðist af krafti allan tímann og gerði sérstaklega vel í að halda boltanum í fyrri hálfleik þegar íslenska liðið þurfti að losa boltann fram. Kom hins vegar minna út úr henni fremst á vellinum.

Varamenn Íslands:

Berglind Rós Ágústsdóttir - Kom inn fyrir Selmu Sól á 70. mínútu: 6

Kom inn í leikinn skömmu áður en markið kom. Þurfti mikið að verjast en skilaði boltanum ágætlega frá sér. 

Hafrún Rakel Halldórsdóttir - Kom inn fyrir Öglu Maríu á 70. mínútu: 6 

Lítt áberandi en dugleg sem fyrr.

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir - Kom inn fyrir Hlín á 78. mínútu

Spilaði ekki nóg til að fá einkunn.

Arna Sif Ásgrímsdóttir - Kom inn fyrir Karólínu Leu á 90. mínútu

Spilaði ekki nóg til að fá einkunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×