Erlent

Ellefu hand­teknir vegna dreifingar á „falsaðri“ ó­lífu­olíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Framboð á olífuolíu í ár mun ekki svara eftirspurn.
Framboð á olífuolíu í ár mun ekki svara eftirspurn.

Ellefu hafa verið handteknir í aðgerðum lögregluyfirvalda á Ítalíu og Spáni og hald lagt á rúmlega 5.000 lítra af ólífuolíu. Um er að ræða glæpagengi sem er grunað um að hafa freistað þess að selja unna olíu sem hreina „virgin“ og „extra virgin“ olíu.

Grunur vaknaði fyrst við skoðun olíuflutningabifreiðar í borginni Ciudad Real. Rannsókn leiddi í ljós umfangsmikla starfsemi sem miðaði að því að dreifa unni olíu undir fölsku flaggi út um allan heim.

Á Spáni var lággæða olía unnin til að auka tærleika hennar og gögn fölsuð til að selja olíuna sem hreina og óunna olíu. Þá var dýrari olíu einnig blandað út í ódýrari olíuna til að drýgja hana.

Rannsóknin teygði sig að lokum til Ítalíu, þar sem sama starfsemi átti sér stað.

Eins og fyrr segir voru ellefu handteknir, í átta húsleitum á Ítalíu og Spáni. Lagt var hald á 5.200 lítra af olíu, fjórar bifreiðar og 91 þúsund evrur í peningum. Þá voru bankareikningar frystir.

Verð á ólífuolíu hefur hækkað vegna þurrka og óhagstæðra veðurskilyrða í Evrópu. Ársframleiðslan á heimsvísu er talin munu verða um 2,4 milljón tonn en eftirspurnin er áætluð nema um 3 tonnum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem upp kemst um umfangsmikla glæpastarfsemi í kringum matvæli en árið 2021 voru sautján handteknir í aðgerðum yfirvalda á Spáni vegna svika með saffron. Kryddið var flutt inn frá Íran en selt undir vernduðu og mikilsmetnu spænsku vörumerki.

Hald var lagt á hálft tonn af saffroni í aðgerðunum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×