Fótbolti

Tíu leik­menn PSG kláruðu Le Havre

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kylian Mbappe kom PSG á bragðið.
Kylian Mbappe kom PSG á bragðið. Xavier Laine/Getty Images

Frakklandsmeistarar PSG unnu sterkan 0-2 sigur er liðið heimsótti Le Havre í frönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Gestirnir frá París þurftu þó að leika stærstan hluta leiksins manni færri.

Parísarliðið þurfti að gera skiptingu strax á áttundu mínútu þegar Fabian Ruiz þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Manuel Ugarte kom inn í hans stað.

Aðeins tveimur mínútum síðar fékk Gianluigi Donnarumma, markvörður PSG, að líta beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu og gestirnir þurftu því að leika stærstan hluta leiksins manni færri.

Þrátt fyrir liðsmuninn náði Parísarliðið forystunni á 23. mínútu þegar Kylian Mbappé kom boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Ousmane Dembele og staðan var því 0-1 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Það var svo Vitinha sem innsiglaði sigur PSG með marki á 89. mínútu eftir undirbúning frá varamanninum Ugarte og þar við sat. Niðurstaðan því 0-2 sigur PSG sem trónir á toppi frönsku deildarinnar með 33 stig eftir 14 leiki. Le Havre situr hins vegar í níunda sæti með 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×