Fótbolti

Segir Þor­stein ekki rétta manninn til að stýra lands­liðinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir sagði Þorstein Halldórsson ekki réttan mann til að stýra íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu.
Guðbjörg Gunnarsdóttir sagði Þorstein Halldórsson ekki réttan mann til að stýra íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu. skjáskot

Guðbjörg Gunnarsdóttir er markmannsþjálfari u-18 ára landsliðs Svíþjóðar sem mætir Íslandi í tveimur æfingaleikjum á dögunum. Hún gaf sig til tals við Ríkharð Óskar Guðnason fyrir komandi leiki, þegar talið barst að íslenska A-landsliðinu sagði hún erfitt að sjá leikplan þjálfarans Þorsteins Halldórssonar og viðurkenndi að hún teldi hann ekki rétta manninn til að stýra liðinu. 

Hóf bæði leikmanna- og þjálfaraferilinn í Hafnarfirði

Þeirra samtal hófst á umræðu um endurkomu Guðbjargar í Kaplakrika, þar fara æfingaleikirnir fram en Guðbjörg hóf einmitt ferilinn með FH árið 1999. Eftir þrjú ár hjá FH og sex ár með Val lá leiðin erlendis en Guðbjörg spilaði með liðum í Noregi, Þýskalandi og Svíþjóð. 

Auk þess var hún landsliðsmarkvörður Íslands frá árinu 2004, hún á að baki 64 A-landsleiki auk þess að hafa leikið með öllum yngri landsliðum Íslands. 

KSÍ hafði ekki samband eftir að ferlinum lauk 

Guðbjörg sagði lífið eftir fótboltaferilinn hafa þróast fljótt, hún hafi enn áhuga og ástríðu á íþróttinni og vilji hafa áhrif á annan hátt. Knattspyrnusamband Svíþjóðar setti sig í samband við hana og bauð henni stöðu sem markmanns-þjálfari. Hún sagði KSÍ ekki hafa haft samband við sig og tók undir þegar fréttamaður sagði það þeirra missi. 

Guðbjörg gladdist yfir tækifærinu en sagði það „ótrúlega skrítið“ að mæta Íslandi í sínum fyrsta leik og viðurkenndi að hún fengi enn gæsahúð þegar þjóðsöngur Íslands spilast. 

Klippa: Viðtal við Guðbjörgu Gunnarsdóttir

Er Þorsteinn rétti maðurinn til að stýra liðinu? „Nei“

Þegar talið barst íslenska A-landsliðinu sagðist Guðbjörg hafa séð framfarir í síðustu leikjum en þar áður hafi verið mikil stöðnun og oft á köflum hafi verið erfitt að sjá hvert leikplan liðsins væri. 

Hún sagði það gott að fleiri markverðir væru að koma upp en benti á það sem margir hafa kallað eftir, að Ísland ætti að halda úti u-23 ára liði til að auðvelda leikmönnum að brúa bilið milli yngri landsliða og A-landsliðsins. 

Ríkharð spurði Guðbjörgu að lokum hvort hún teldi Þorstein Halldórsson rétta manninn til að stýra liðinu eins og staðan er í dag. Svarið við því var einfalt „Nei“ frá Guðbjörgu. 

Viðtalið allt má sjá í spilaranum hér að ofan. 

Ísland mætir Wales í Þjóðadeildinni í kvöld, leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður í beinni textalýsingu á Vísi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×