Innlent

Bjuggust ekki við 25 metra djúpri holu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, segir að maður þurfi að fara varlega.
Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, segir að maður þurfi að fara varlega.

25 metra djúp hola sem nær niður í grunnvatn kom í ljós í íbúðargötu í Grindavík í dag. Ljóst er að jarðvegur er enn á hreyfingu í bænum. Greint var frá þessu í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrr í kvöld.

„Við bjuggumst við að finna holur hér og þar. En 25 til 27 metra djúpa átti ég ekki von á að finna hérna, sem væri niður í grunnvatn.“ segir Ólafur Örvar Ólafsson, varðstjóri hjá lögreglunni þegar blaðamaður Vísis ræddi við hann í dag.

„Venjuleg lofthæð á húsi er í kringum þrír metrar, þannig það er svolítið langt að detta þarna niður. Maður þarf að fara varlega,“ segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík.

Hver styðji annan

Þrátt fyrir holur, sprungur og skemmdir lítur út fyrir að atvinnulífið í Grindavík sé að vakna úr dvala. Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík fagnar því.

„Það eru sem betur fer ýmsir sem hafa hug á því að opna hjá okkur. Það er auðvitað bæði húsnæði og vélakostur tilbúinn fyrir framleiðslu og ýmis konar þjónustu þannig að nú er menn að koma heim aftur og nýta sín tækifæri þar til þess að halda rekstrinum gangandi,“ segir hann.

Fannar segir að líf sé að kvikna á ný í bænum og að Grindvíkingar standi hver við annars bak.

 „Þetta er virkilega ánægjulegt og það styður hver annan í þessu. Auðvitað þurfa þeir sem koma til vinnu að morgni og fara að kvöldi þurfa að fá veitingar og ýmsa þjónustu. Það eru líka vélaverkstæði og trésmiðjur og fleira sem er að fara í gang. Þannig að keðjan er samhangandi og allt lífið að taka á sig frummynd þess sem við vonum að sé upphaf af hinu góða.“

Fréttina má horfa á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×