Erlent

Skipar nýja stjórn undir for­ystu Morawiecki þrátt fyrir minni­hluta

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Duda mun síðdegis skipa nýja ríkisstjórn undir forystu Morawiecki þrátt fyrir að hann hafi ekki meirihluta.
Duda mun síðdegis skipa nýja ríkisstjórn undir forystu Morawiecki þrátt fyrir að hann hafi ekki meirihluta. Getty/Mateusz Wlodarczyk

Síðdegis í dag mun Andrzej Duda, forseti Póllands, skipa nýja ríkisstjórn undir forystu Mateuszar Morawiecki. Þetta gerir hann þrátt fyrir að Morawiecki hafi ekki meirihluta. 

Í upphafi mánaðar veitti Duda Morawiecki, þá fráfarandi forsætisráðherra, umboð til stjórnarmyndunar. Þingkosningar fóru fram í október og missti þá flokkur Morawiecki, Lög og réttur (PiS), meirihluta sinn á þingi. 

Svo virðist sem Morawiecki hafi ekki tekið endanlega ákvörðun um samsetningu ríkisstjórnar, enda hefur hann ekki tilkynnt hverjir muni sinna ráðherraembættum. Fram kemur í tilkynningu frá pólska forsetaembættinu að Duda muni skipa Morawiecki síðdegis og úthluta ráðherrasætum. 

Ný ríkisstjórn verði þá talsvert fámennari en sú fyrri og í henni verði fjöldi kvenna. Ríkisstjórn „stjórnmálamanna og sérfræðinga,“ eins og Morawiecki hefur lýst henni. 

Lög og réttur tryggði sér 35 prósent atkvæða í kosningunum í október og varð stærsti flokkurinn á þingi, en missti þrátt fyrir það meirihluta. Borgaravettvangur, flokkur Donald Tusk, hlaut tæplega 31 prósent atkvæða, á meðan mið-hægriflokkurinn Þriðja leiðin hlaut 14 prósent atkvæða og Nýja vinstrið tæplega níu prósent. 

Leiðtogar allra annarra flokka á þinginu hafa útilokað stjórnarsamstarf með Lögum og rétti. Flokkarnir Borgaravettvangur, Þriðja leiðin og Nýja vinstrið lýstu því yfir í október að vera viljugir til að mynda saman ríkisstjórn, undir forystu Donalds Tusk. 

Ólíklegt má teljast að ný ríkisstjórn Morawiecki nái að tryggja stuðning þingsins, þegar kemur í skaut þess að greiða atkvæði um traust til nýrrar stjórnar. Mun þá líklega koma í hlut þingheims að velja annan til að mynda nýja stjórn, sem líklegt er að yrði Tusk. 


Tengdar fréttir

Veitir Morawi­ecki um­boð til stjórnar­myndunar

Andrzej Duda, forseti Póllands, hefur veitt fráfarandi forsætisráðherra, Mateusz Morawiecki, umboð til stjórnarmyndunar eftir þingkosningar sem fram fóru í síðasta mánuði. Morawiecki kemur úr röðum stjórnarflokksins Lögum og rétti (PiS) sem missti meirihluta sinn á þingi í kosningunum.

Kallar nýtt þing ekki saman fyrr en eftir þrjár vikur

Andrzej Duda forseti Póllands segist ekki ætla að kalla saman nýtt þing fyrr en 13. nóvember næstkomandi. Þá verður liðinn tæpur mánuður frá því að stjórnarandstaðan vann yfirburðarsigur í þingkosningum. Ólíklegt er að ný ríkisstjórn taki við fyrr en í desember.

Hvetja for­setann að sóa ekki meiri tíma

Leiðtogar þriggja stjórnarandstöðuflokka í Póllandi, sem saman tryggðu sér meirihluta þingmanna í þingkosningunum um þarsíðustu helgi, segjast reiðubúnir að mynda nýja stjórn þar sem Donald Tusk yrði næsti forsætisráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×