Erlent

Fá­tækt fólk mun lík­legra til að deyja af völdum sýklasóttar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um það bil 48 þúsund manns deyja árlega af völdum sýklasóttar á Bretlandseyjum.
Um það bil 48 þúsund manns deyja árlega af völdum sýklasóttar á Bretlandseyjum. Getty

Fátækt fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma er mun líklegra en aðrir til að deyja af völdum sýklasóttar. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar á Bretlandseyjum.

Sýklasótt, áður nefnd blóðeitrun, er heilkenni sem orsakast af almennu bólguviðbragði líkamans við alvarlegri sýkingu. Ónæmiskerfið bregst þá við sýkingunni með því að ráðast gegn vefjum og líffærum.

Áætlað er að um 48 þúsund manns látist árlega á Bretlandseyjum af völdum sýklasóttar.

Rannsóknin tók til 248.767 tilfella sýklasóttar á tímabilinu frá janúar 2019 og til júní 2022. Aðeins var horft til þeirra tilvika sem voru ekki tengd Covid-19. Í ljós kom að fátækt fólk var tvöfalt líklegra en aðrir til að deyja innan 30 daga.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að einstaklingar sem glímdu við lifrar- og nýrnasjúkdóma voru mun líklegri til að fá sýklasótt en aðrir og sömuleiðis sjúklingar með krabbamein og ónæmisbælandi sjúkdóma. Þá voru þeir einnig í aukinni áhættu sem höfðu ítrekað fengið sýklalyf.

Vísindamennirnir á bak við rannsóknina segja niðurstöðurnar eiga að hjálpa heilbrigðisstarfsmönnum að greina sýklasótt en einkenni hennar eru oft almenn og sameiginleg með öðrum sjúkdómum.

Umboðsmaður opinbera heilbrigðiskerfisins á Bretlandseyjum sagði í síðasta mánuði að fólk væri að deyja að óþörfu af völdum sýklasóttar vegna ítrekaðra mistaka við að greina og meðhöndla ástandið.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×