Fótbolti

Suárez segir Núnez einn besta fram­herja heims

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luis Suárez er sáttur með arftaka sinn í úrúgvæska landsliðinu, Darwin Núnez.
Luis Suárez er sáttur með arftaka sinn í úrúgvæska landsliðinu, Darwin Núnez. getty/Patrick Smith

Luis Suárez fór fögrum orðum um Darwin Núnez eftir að sá síðarnefndi skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Úrúgvæ á Bólivíu í undankeppni HM 2026.

Núnez hefur skorað í fjórum landsleikjum í röð en aðrir tveir aðrir Úrúgvæar hafa afrekað það. Annar þeirra er Suárez sem talaði mjög fallega um Núnez eftir leikinn í gær.

„Einn besti framherji í heimi er á undan mér í goggunarröðinni,“ sagði Suárez sem kom inn á sem varamaður fyrir Núnez á 73. mínútu. Leikurinn í gær var 137. landsleikur Suárez.

„Við þurfum að styðja hann og njóta hans. Í dag er ég í öðru hlutverki og er ánægður að vera hér og hjálpa hópnum.“

Núnez leikur með Liverpool sem Suárez gerði garðinn frægan með á árunum 2011-14. Suárez var einmitt fenginn til að tala við Núnez eftir að hann fór rólega af stað með Liverpool eftir komuna frá Benfica í fyrra.

Úrúgvæ hefur unnið síðustu þrjá leiki sína í undankeppni HM með markatölunni 7-0. Liðið er í 2. sæti Suður-Ameríkuriðilsins með þrettán stig eftir sex leiki.

Úrúgvæar hafa unnið sex af átta leikjum sem þeir hafa spilað undir stjórn Marcelos Bielsa, gert eitt jafntefli og aðeins tapað einum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×