Fótbolti

Potter hafði ekki á­huga á því að taka við sænska lands­liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Graham Potter sést hér fagna sem knattspyrnustjóri Chelsea en sá tími endaði eftir aðens nokkra mánuði í starfi.
Graham Potter sést hér fagna sem knattspyrnustjóri Chelsea en sá tími endaði eftir aðens nokkra mánuði í starfi. EPA-EFE/Neil Hall

Svíar eru að leita sér að nýjum þjálfara fyrir karlalandsliðið sitt í fótbolta en Janne Andersson hætti með liðið eftir að Svíum mistókst að tryggja sér sæti á Evrópumótinu næsta sumar.

Aftonbladet hefur heimildir fyrir því að sænska sambandið hafi kannað möguleikann á því að ráða Graham Potter en hann hafi ekki sýnt því áhuga.

Potter er þekktastur fyrir að stýra Chelsea í stuttan tíma eftir að hafa slegið í gegn með lið Brighton. Hann sló þó fyrst í gegn sem þjálfari í Svíþjóð þegar hann gerði góða hluti með Östersund frá 2011 til 2018.

Potter var rekinn sem knattspyrnustjóri Chelsea 2. apríl á þessu ári en hann hafði skrifað undir fimm ára samning í september 2022. Hann er enn atvinnulaus en fékk vænan uppsagnarsamning hjá enska félaginu.

Í frétt Aftonbladet kemur fram að Norðmaðurinn Per-Mathias Högmo sé nú efstur á óskalistanum hjá sænska sambandinu. Högmo er 63 ára gamall og gerði norska kvennalandsliðið að Ólympíumeisturum árið 2000. Hann hefur einnig stýrt 21 árs landsliði Norðmanna og þjálfaði A-landsliðs Noregs frá 2013 til 2016.

Hann er nú þjálfari Häcken í Svíþjóð og gerði liðið að sænskum meisturum í fyrra. Liðið endaði síðan í þriðja sætinu á þessu tímabili.

Sænska landsliðið er ekki í góðri stöðu en liðið var langt frá því að komast á EM og er dottið niður í C-deild í Þjóðadeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×