Erlent

Þeim fjölgar sem finnast löngu eftir and­lát

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fleiri virðast glíma við félagslega einangrun og einmanaleika.
Fleiri virðast glíma við félagslega einangrun og einmanaleika. Getty

Þeim fjölgar ört sem látast á Englandi og í Wales en finnast ekki fyrr en löngu seinna, þannig að líkin eru farin að brotna niður. Vísindamenn segja þáttum á borð við aukna félagslega einangrun um að kenna.

Í mörgum, ef ekki flestum, tilvikum er um að ræða fólk sem deyr heima og finnst ekki fyrr en löngu seinna. Samkvæmt nýrri rannsókn eru karlar tvöfalt líklegri en konur til að finnast svo löngu eftir andlát að lík þeirra eru byrjuð að brotna niður.

Vísindamennirnir segja aukninguna benda til þess að bæði formleg og óformleg samfélagsleg stuðningsnet séu ekki jafn öflug og þau voru. Þá liggi beint við að rekja þá staðreynd að fólk sé að finnast dögum, vikum, mánuðum og jafnvel árum eftir andlát til einhvers konar vanrækslu en frekari rannsókna sé þörf.

Í niðurstöðunum er meðal annars komið inn á andlát tveggja kvenna; Lauru Winham, sem var 38 ára og glímdi við alvarleg andleg veikindi og fannst ekki fyrr en þremur árum eftir að hún lést, og Sheilu Seleoane, 61 árs, sem fannst á heimili sínu í Lundúnum tveimur árum eftir andlát.

„Þessi rannsókn er mjög dapurleg lesning,“ segir Kamila Hawthorne, formaður læknasamtakanna Royal College of GPs. „Einmanaleiki er alltof algengur og þrátt fyrir að hann sé eitthvað sem allir aldurshópar upplifa þá getur hann verið sérstaklega erfiður eldra fólki. Áhrif hans á heilsu og lífsgæði fólks eru umtalsverð,“ segir hún.

Þeir sem þjáist af einmanaleika séu mun líklegri en aðrir til að deyja fyrr.

Hawthorne segir að á sama tíma og fólk lifi nú lengur þýði það að fleiri búi nú mögulega lengur við einangrun frá öðrum. Auðvelt sé að greina líkamleg og efnahagsleg vandamál fólks en ekki jafn auðvelt að koma auga á samfélagslega og andlega erfiðleika.

Þess má geta að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sagði í síðustu viku að einmanaleiki væri ógn við lýðheilsu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×