Fótbolti

Heimir Hall­gríms kom Jamaíku í undanúrslitin og inn á Copa America

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson er að gera frábæra hluti með landslið Jamaíku.
Heimir Hallgrímsson er að gera frábæra hluti með landslið Jamaíku. Getty/Matthew Ashton

Jamaíska fótboltalandsliðið sló Kanada út í nótt í átta liða úrslitum Þjóðadeildarinnar og skrifaði um leið söguna á margvíslegan hátt.

Heimir Hallgrímsson, þjálfari Jamaíka, skrifaði marga nýja kafla í sögu íslenska karlalandsliðsins þegar hann þjálfaði liðið og hann hefur haldið uppteknum hætti eftir að hann tók við þjálfun þess jamaíska.

Jamaíka vann 3-2 útisigur á Kanada og fór áfram í undanúrslitin á fleiri mörkum á útivelli. Jamaíka tapaði nefnilega fyrri leiknum á heimavelli 1-2 og var því ekki í allt of góðri stöðu fyrir leikinn í nótt.

Jamaíka var þarna að komast í undanúrslit Þjóðadeildarinnar í fyrsta skiptið en liðið tryggði sér einnig sæti í Copa America keppninni en þetta verður aðeins í þriðja skiptið þar sem Jamaíkubúar verða með þar.

Það er ekki nóg með að Jamaíka tapaði fyrri leiknum heldur lenti liðið einnig undir í fyrri hálfleiknum. Kanada var því komið tveimur mörkum yfir í einvíginu en strákarnir hans Heimis gáfust ekki upp.

Hálfleiksræða Heimis kveikti í hans mönnum því Shamar Nicholson skoraði tvö mörk snemma í honum og kom sínu liði í 2-1. Kanada jafnaði metin aðeins þremur mínútum síðar en á 78. mínútu kom Bobby Reid Jamaíku aftur yfir með marki úr vítaspyrnu. Það mark nægði til að koma Jamaíku áfram.

Jamaíka endaði reyndar leikinn manni færri eftir að Demarai Gray fékk sitt annað gula spjald á 85. mínútu.

Þetta var líka fyrsti sigur Jamaíka á Kanada í Kanada og í fyrsta sinn sem Jamaíka skorar þrjú mörk í leik á móti þjóð frá Norður-Ameríku í Norður-Ameríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×