Fótbolti

FIFA þarf að greiða Barcelona þrjár milljónir á dag vegna meiðsla Gavis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gavi var sárþjáður eftir að hafa meiðst gegn Georgíu.
Gavi var sárþjáður eftir að hafa meiðst gegn Georgíu. getty/Ion Alcoba

Meiðslin alvarlegu sem spænski miðjumaðurinn Gavi varð fyrir í leiknum gegn Georgíu í fyrradag kosta FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið, skildinginn.

Eftir leikinn gegn Georgíu kom í ljós að Gavi hafði slitið krossband í hné. Hann verður frá keppni næstu níu mánuðina eða svo og missir meðal annars af EM í Þýskalandi 2024 og Ólympíuleikunum sama ár ef hann ætlaði að spila þar.

Ef leikmaður meiðist í landsleik þarf FIFA að borga félagsliðum viðkomandi leikmanns bætur á meðan hann er meiddur.

Gavi leikur með Barcelona en félagið fær 20.548 evrur frá FIFA fyrir hvern dag sem hann er meiddur. Það gera rúmlega þrjár milljónir króna á degi hverjum.

Þrátt fyrir að vera aðeins nítján ára hefur Gavi leikið 27 landsleiki fyrir Spán og skorað fimm mörk. Hann byrjaði að spila með spænska landsliðinu haustið 2021, skömmu eftir að hann fór að spila með aðalliði Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×