Fótbolti

Hægt að kaupa sex af treyjum Messi frá HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi með eina af treyjunum eftirsóttu.
Lionel Messi með eina af treyjunum eftirsóttu. @sothebys

Áhugasamir munu fá tækifæri til að bjóða í margar af keppnistreyjum Lionel Messi frá sögulega heimsmeistaramótinu hans í Katar fyrir tæpu ári síðan.

Alls verða sex Messi treyjur boðnar upp og það er búist við því að þarna gæti fallið met í sölu á slíkum minnisverðum hlutum.

Messi kórónaði frábæran feril sinn á HM 2022 með því að vinna langþráðan heimsmeistaratitil með argentínska landsliðinu. Messi skoraði sjö mörk í keppninni og var kosinn besti leikmaður keppninnar. Hann fékk líka Gullhnöttinn á dögunum aðallega vegna frammistöðu sinnar í Katar.

Sotheby uppboðið í New York hefur staðfest að treyjurnar verði boðnar upp og það hefur Messi sjálfur gert einnig. Messi vottaði söluna á treyjunum á samfélagsmiðlum sínum.

Treyjurnar verða boðnar upp í einum pakka en hægt verður að kaupa þær frá 30. nóvember til 14. desember. Hluti af söluverðinu verði gefinn til góðgerðasamtaka.

Það er talið að treyjurnar gætu selst á meira en tíu milljónir Bandaríkjadala eða 1,4 milljarða íslenskra króna.

Treyjurnar sem eru í pakkanum eru úr tveimur af þremur leikjum riðlakeppninnar en einnig treyjan úr í sigrinum á Ástralíu í sextán liða úrslitum, treyjan úr sigrinum á Hollandi í átta liða úrslitum, treyjan úr sigrinum á Króatíu í undanúrslitunum og svo djásnið sem er treyjan úr sigrinum á Frakklandi í úrslitaleiknum.

Almenningur hefur möguleika á því að skoða treyjurnar hjá Sotheby uppboðstifunni í New York næstu daga og kostar ekkert inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×