Að sögn björgunarsveita hefur vel gengið við lokunarpóstinn á Grindavíkurvegi í morgun. Yfirvöld hafa biðlað til þeirra Grindvíkinga sem enn eiga eftir að komast heim að hafa samband. Unnið hefur verið að varnargarði við Svartsengi og Bláa lónið dag og nótt undanfarna daga.
Þetta er bara vinna
Hvernig gengur að byggja þessa varnargarða?
„Bara vel held ég. Það er unnið alla nóttina,“ segir Ingi. Hann segist hafa verið að mæta á vakt og því viti hann ekki hver staðan sé á framkvæmdinni, en vonandi hafi hún gengið vel í nótt.
Hvernig líður þér að vinna á þessu svæði núna?
„Ekkert of vel. Alls ekki of vel. En þetta er bara vinna. Því miður.“
Hvað með vinnufélagana, eru þeir sama sinnis, eru þeir órólegir eða hvað?
„Já ég held að það séu bara allir. Sama í hvaða flokki það er.“
Hvað ertu að flytja hérna?
„Núna er ég með tóman bíl, ég er að fara upp í Stapafell að ná í efni og fara með í Arnargarða.“