Fótbolti

Mal­mö sænskur meistari á kostnað Íslendingaliðs Elfsborg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Malmö er sænskur meistari eftir dramatíska lokaumferð.
Malmö er sænskur meistari eftir dramatíska lokaumferð. Malmö

Malmö er Svíþjóðarmeistari í knattspyrnu eftir 1-0 sigur á Íslendingaliði Elfsborg í hreinum úrslitaleik í dag. 

Leikurinn tafðist gríðarlega og var þar sem stuðningsfólk Elfsborg byrjaði að brenna öryggisnetið fyrir aftan markið. Síðan kveikti stuðningsfólk Malmö á svo mörgum blysum að brunakerfi vallarins fór í gang. Alls var 45 mínútna bið frá því að fyrri hálfleik lauk og sá síðari hófst.

Aðrir leikir voru því löngu búnir þegar toppliðin tvö áttu enn eftir að skera úr um hvort myndi standa uppi sem Svíþjóðarmeistari. Hvað leikinn sjálfan varðar þá gerðist fátt markvert í fyrri hálfleik en fyrir leik var ljóst að Malmö yrði að vinna á meðan Elfsborg dugði jafntefli.

Hákon Rafn var að venju í marki Elfsborgar.Elfsborg

Hákon Rafn Valdimarsson stóð vaktina í marki Elfsborgar og Andri Fannar Baldursson hóf leik á miðjunni. Sveinn Aron Guðjohnsen kom inn af bekknum á 58. mínútu en þá var staðan 1-0 Malmö í vil eftir að Isaac Kiese Thelin skoraði úr vítaspyrnu mínútu áður. 

Hinn 17 ára gamli Daníel Tristan Guðjohnsen var ekki í leikmannahópi Malmö en hann hefur verið mikið meiddur á leiktíðinni.

Markið sem Thelin skoraði á 58. mínútu reyndist eina mark leiksins og þýddi það að Malmö stökk upp fyrir Elfsborg með betri markatölu. Leiknum lauk með 1-0 sigri Malmö og liðið því Svíþjóðarmeistari því markatala liðsins var +35 á meðan hún var +33 hjá Elfsborg.

Sirius og Norrköping mættust í Íslendingaslag þar sem Ari Freyr Skúlason spilaði sinn síðasta leik á ferlinum. Hann var í byrjunarliði Norrköping líkt og Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson. Ari Freyr var tekinn af velli á 70. mínútu en Sirius vann 2-0 sigur.

Aron Bjarnason var í byrjunarliði Sirius en fór meiddur af velli á 20. mínútu. Óli Valur Ómarsson sat allan tímann á varamannabekknum.

Með sigrinum tókst Sirius að enda fyrir ofan Norrköping en liðin luku leik í 8. og 9. sæti. Sirus með 42 stig en Norrköping 41 stig.

Kolbeinn Þórðarson nældi sér í gult spjald þegar Gautaborg vann 2-1 útisigur á Varberg. Markvörðurinn Adam Ingi Benediktsson sat allan tímann á varamannabekk Gautaborgar. Þá spilaði Óskar Sverrisson allan leikinn í liði Varberg.

Með sigrinum tryggði Gautaborg sæti sitt í deildinni en liðið endaði í 13. sæti með 34 stig. Varberg var löngu fallaði og endaði í botnsætinu með aðeins 15 stig.

Davíð Kristján Ólafsson spilaði allan leikinn í vinstri bakverði Kalmar sem vann 2-1 sigur á Djurgården. Kalmar endaði í 6. sæti deildarinnar með jafn mörg stig og Varnamo sem endaði sæti ofar en verri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×