Innlent

Nokkuð jafnt land­ris þó hröðunin sé ó­lík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dreifing skjálftanna frá því á miðnætti í nótt.
Dreifing skjálftanna frá því á miðnætti í nótt. Veðurstofa Íslands

Stórir skjálftar á Reykjanesinu í nótt þarf ekki að þýða aukinn hraða á kvikusöfnun. Skjálftarnir eru dæmi um hviðakennda skjálftavirkni sem búast má við meðan að kvikusöfnun er í gangi. Landið rís nokkuð jafnt þó hröðun mælist ólík á milli daga.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að um 1400 skjálftar hafi mælst síðasta sólarhring. Virkni hafi aukist upp úr miðnætti og síðan hafi sjö skjálftar yfir fjórir að stærð mælst, sá síðasti rétt fyrir klukkan þrjú.

Stærsti skjálftinn mældist 4,9 að stærð klukkan 00:46 rétt vestan við Þorbjörn og er það stærsti skjálfti síðan jarðskjálftahrinan hófst 25. október. Skjálftar yfir fjórum að stærð mældust á svæðinu frá Eldvörpum að svæðinu austan Sýlingarfells. Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram má gera ráð fyrir skjálftavirkni á Reykjanesskaga vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu.

Samkvæmt GPS gögnum á miðnætti mælist enn landris á svæðinu. Verið er að yfirfara GPS gögnin í tengslum við skjálftavirknina í nótt. 

Ef miðað er við 27. október sem upphafsdag þenslunnar til dagsins í dag hefur land risið nokkuð jafnt þó svo að hröðun á ferlinu hafi mælst ólík á milli daga. 

„Skjálftavirknin í nótt og í morgun er dæmi um þessa hviðukenndu skjálftavirkni sem má búast við á meðan að kvikusöfnun er í gangi. Það að nú mælist stærri skjálftar en áður á svæðinu, þarf ekki að þýða aukinn hraða á kvikusöfnun,“ segir á vef Veðurstofunnar.


Tengdar fréttir

Engin merki um að kvika sé að færast ofar þrátt fyrir stóru skjálftana

Frá miðætti hafa á þriðja tug jarðskjálfta mælst yfir þremur að stærð og þar af hafa sjö mælst fjórir að stærð og jafnvel stærri. Stærsti skjálftinn upp á 4,8 að stærð reið yfir klukkan 0:46 í nótt og svo fylgdi fjöldinn allur af stórum eftirskjálftum. Stóri skjálftinn í nótt er sá stærsti frá upp hafi jarðskjálftahrinunnar 25. október.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×