Innlent

Vill láta breyta nafni hluta Há­túns

Atli Ísleifsson skrifar
Líf segir að í raun sé Hátún í Reykjavík tvær götur. Hún vill sjá að nafni norður-suðurkaflans verði breytt og nefndur í höfuðið á Ólöfu Ríkarðsdóttur.
Líf segir að í raun sé Hátún í Reykjavík tvær götur. Hún vill sjá að nafni norður-suðurkaflans verði breytt og nefndur í höfuðið á Ólöfu Ríkarðsdóttur. Vísir/Vilhelm/Sjálfsbjörg

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, vill að nafni hluta götunnar Hátúns í Reykjavík verði breytt og hann nefndur í höfuðið á einum af stofnenda Öryrkjabandalagsins. Vill borgarfulltrúinn að norður-suður hluti götunnar verði þannig nefndur Ólafartún í höfuðið á Ólöfu Ríkarðsdóttur.

Líf lagði tillögu um að umhverfis- og skipulagsráð myndi samþykkja að skoða nafnabreytingu á fundi ráðsins í september síðastliðinn. Málinu var þá frestað og var svo aftur frestað á fundi ráðsins í byrjun mánaðar.

Líf segir að í raun sé Hátún tvær götur.

„Önnur gatan er norður-suður og hin gatan liggur þvert á, austur-vestur. Lagt er til að sú gata sem liggur í norður-suður fái nafnið Ólafartún í höfuðið á Ólöfu Ríkarðsdóttur ein stofnenda ÖBÍ en skrifstofur ÖBÍ voru til margra ára í Hátúni 10,“ segir í greinargerð Lífar.

Áfram segir hún að Ólöf Ríkarðsdóttir hafi verið ötul baráttukona og brautryðjandi fyrir réttindum fatlaðs fólks og öryrkja.

„Hún lagði mikla áherslu á húsnæðismál sem fatlað fólk nýtur góðs af enn í dag. Eins lyfti hún ásamt fleirum, grettistaki í aðgengismálum fatlaðs fólks að opinberum byggingum, sérmerktum bílastæðum og ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk. Það færi vel á því að heiðra minningu hennar með götunafnagjöf og um leið fjölga götum í Reykjavík sem heita eftir konum,“ segir Líf.

Ólöf Ríkarðsdóttir lést árið 2017.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×