Innlent

Lokað í verslunum Pennans vegna netárásar

Kolbeinn Tumi Daðason, Rafn Ágúst Ragnarsson og Árni Sæberg skrifa
Verslun Pennans við Hallarmúla.
Verslun Pennans við Hallarmúla. Vísir/Vilhelm

Lokað hefur verið í öllum 16 verslunum Pennans Eymundsson síðan í hádeginu í dag. Ástæðan mun vera netárás á fyrirtækið.

Mbl.is greindi fyrst frá

Verslunarstjóri Pennans Eymundsson í Kringlunni tjáði fréttastofu að skellt hefði verið í lás í hádeginu. Þá hefði starfsfólki verið sagt að loka tölvum sínum. Heimasíða Pennans liggur niðri.

Í tilkynningu frá Pennanum Eymundsson segir að um netárás hafi verið að ræða. Það kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar kemur einnig fram að sérfræðingar vinni að því að greina og meta umfang árásarinnar og að nánari upplýsingar verði veittar um leið og þær liggja fyrir.

Þessi skilaboð bíða þeirra sem heimsækja verslun Pennans í Hallarmúla.Vísir/Vilhelm

Útgáfuhóf sem áætluð séu í verslunum Pennans Eymundsson í Austurstræti og Skólavörðustíg verði haldin samkvæmt áætlun. Annars verði verslanir Pennans lokaðar það sem eftir er dags.

Bregðast rétt við

Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður netöryggissveitarinnar CERT-IS, segir að Pennin hafi tilkynnt stofnuninni um netárásina en að netöryggi Pennans heyri ekki undir hana. Hann segi þó gott að Penninn hafi látið vita og að hann telji fyrirtækið vera að bregðast rétt við í samstarfi við fagaðila á einkamarkaði.

Guðmundur Arnar Sigmundsson er forstöðumaður CERT-IS

Þá segir Guðmundur Arnar að engar frekari tilkynningar um netárásir hafi borist í dag en nokkuð hafi borið á slíkum tilkynningum undanfarnar vikur. Þá hafi algengast aðferð netþrjóta verið að senda starfsmönnum tölvupósta og reyna að fá þá til þess að opna hlekki eða að brjótast inn í gegnum svokallað VPN-kerfi.

Hann viti þó ekkert um það hvers kyns árás var framin á kerfi Pennans í dag.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum á netfangið ritstjorn@visir.is eða í tölvupósti á einstaka blaðamenn. Fullum trúnaði er heitið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×