Fótbolti

Samúel skoraði fyrir framan lík­legan kaupanda fé­lagsins

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Samúel Karl Friðjónsson skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu í dag
Samúel Karl Friðjónsson skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu í dag Atromitos FC

Samúel Kári Friðjónsson gekk í augun á líklegum kaupanda Atromitos þegar hann skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu fyrir liðið í 3-1 sigri á Aris. Atromitos sótti þar sinn annan sigur í röð eftir erfiða byrjun á tímabilinu. 

Atromitos hefur verið í miklum vandræðum, Chris Coleman, þjálfara liðsins, var sagt upp störfum fyrir tæpum mánuði eftir 5-0 tap gegn Panathinaikos. En síðan þá hefur Atromitos sótt tvo sigra úr þremur leikjum og klifið upp stöðutöfluna.

Orðrómar hafa verið á sveimi þess efnis að eigandinn vilji selja félagið. Tyrkneski sjónvarpsmaðurinn, frumkvöðullinn og viðskiptamógúlinn Acun Ilicali hefur verið sterklega orðaður við kaupin og hann sást meðal áhorfenda á leiknum í kvöld. 

Annars staðar á Grikklandi vann PAOK öruggan 4-2 sigur á erkifjendum sínum Olympiacos eftir að hafa komist fjórum mörkum yfir. 

Leikurinn átti upphaflega að fara fram fyrir luktum dyrum á Karaiskakis leikvanginum. Heimaliðið Olympiacos var úrskurað í tveggja leikja áhorfendabann af gríska knattspyrnusambandinu eftir óeirðir stuðningsmanna liðsins í kringum leik gegn Panathinaikos síðastliðinn júní. 

Rannsóknarnefnd á vegum knattspyrnusambandsins ráðlagði að dæma félagið í áhorfendabann, vanalega hefur það dugað til og engan lokaúrskurð þurft í slíkum málum á Grikklandi en Olympiacos nýtti sér glufu í lögunum og fékk banninu frestað þar til knattspyrnusambandið kemur sér saman og dæmir félagið endanlega í bann. Málið vakti mikla athygli innan gríska knattspyrnuheimsins og PAOK var mjög ósátt við niðurstöðu málsins. 

Stuðningsmenn Olympiacos eru með þeim hörðustu sem fyrirfinnast og hafa margoft komið sér og félagi sínu í vandræði utan vallar. Í Evrópudeildarleik liðsins gegn West Ham mættu stuðningsmenn með aðvörun til andstæðinganna um kvöldverð í helvíti.

Þrátt fyrir sterkan stuðning áhorfenda eins og sjá má í myndskeiðinu hér mátti Olympiacos þola slæmt tap. PAOK kemur sér með þessum sigri upp í fjórða sæti deildarinnar, aðeins einu stigi munar milli þeirra og Olympiacos í öðru sætinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×