Fótbolti

Gamli Liverpool-maðurinn hættur hjá Montpellier eftir að hafa slegist við þjálfarann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mamadou Sakho er án félags eftir að hafa yfirgefið Montpellier.
Mamadou Sakho er án félags eftir að hafa yfirgefið Montpellier. getty/John Berry

Mamadou Sakho, fyrrverandi leikmaður Liverpool, er hættur hjá franska félaginu Montpellier eftir að hafa lent saman við þjálfara þess.

Sakho og Michel Der Zakarian, þjálfara Montpellier, lenti saman á æfingu í síðustu viku. Sakho brást illa við og rauk af æfingunni þegar Der Zakarian dæmdi ekki aukaspyrnu fyrir hann á æfingunni. Þjálfarinn sagði við Sakho að hann réði því hvort og hvenær hann æfði og kallaði hann grenjuskjóðu. Þá fauk enn meira í Sakho sem greip í hálsmálið á Der Zakarian sem féll við.

Sakho hefur einnig verið sakaður um að hafa sparkað í Der Zakarian og hálsmen þjálfarans hafi brotnað í átökunum.

Leiðir hafa nú skilið hjá Sakho og Montpellier. Samkvæmt félaginu var allt gert í góðu en annar tónn er í yfirlýsingu sem Sakho sendi frá sér.

Þar hafnar hann allri ábyrgð á atvikinu og segist ekki eiga annan kost í stöðunni en að yfirgefa Montpellier.

„Þú verður vita hvenær þú átt að ganga frá borði þegar virðing er ekki lengur í boði,“ segir í yfirlýsingu Sakhos.

Montpellier fékk Sakho frá Crystal Palace fyrir tveimur árum. Hann lék áttatíu leiki fyrir Liverpool á árunum 2013-17. Sakho lék 29 leiki fyrir franska landsliðið á árunum 2010-18 og skoraði tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×