Innlent

Í­búar minntir á að veiða ekki mýs með frostlegi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sveitarstjórn hyggst minna íbúa á dýravelferðarlög.
Sveitarstjórn hyggst minna íbúa á dýravelferðarlög. Vísir/Vilhelm

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps á Drangsnesi hyggst vekja athygli bæjarbúa á því að ólöglegt sé að nota frostlög til þess að veiða mýs. Oddviti sveitarstjórnar segir engin staðfest dæmi um slíkt en íbúar hafi haft áhyggjur.

Sveitarstjórn samþykkti nýverið að vekja athygli bæjarbúa á því að veiðar með þessum hætti séu ólöglegar. Erindi barst til sveitarstjórnar hreppsins varðandi veiðarnar, að því er fram kemur í fundargerð sveitarstjórnar. Gæti þetta reynst hættulegt húsdýrum, nánar tiltekið köttum þar sem þeir veiða mýs og gætu átt í hættu á að komast í snertingu við frostlöginn.

Finnur Ólafsson, oddviti sveitarstjórnar, segir í samtali við Vísi að um almenn tilmæli séu að ræða, sveitarstjórn viti ekki um nein staðfest dæmi þar sem slíkt hafi verið gert.

„Við höfðum frétt af þessu og ákváðum að gefa út almenn tilmæli. Þetta snýst í raun bara um okkar áhyggjur af málinu,“ segir Finnur. Engin illindi felist í tillögunni. Tilkynning um málið verði send út á heimasíðu sveitarfélagsins og á Facebook hópi íbúa.

„Við reynum bara að tækla þetta án þess að blása þetta upp, af því að það eru engin illindi. Það er svo sem aldrei of oft sú vísa kveðin að allir eigi að sýna öllum tillitssemi.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×