Fótbolti

Ástralar hætta við HM framboð og við fáum líklegast annað jóla-HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katarbúar héldu HM 2022 og heimsmeistaramótið er aftur á leiðinni á Arabíuskagann.
Katarbúar héldu HM 2022 og heimsmeistaramótið er aftur á leiðinni á Arabíuskagann. Getty/Marc Atkins/

Ekkert virðist ætla að koma í veg fyrir það að heimsmeistaramót karla í fótbolta fari fram í Sádí Arabíu árið 2034 og þá líklegast á miðju tímabili í evrópska fótboltanum.

Þetta var endalega ljóst eftir að Ástralar hættu við að sækja um að halda heimsmeistaramótið. Þeir tilkynntu það í morgun en fresturinn til að sækja um rennur út í dag.

Fyrr í þessum mánuði staðfesti Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, að þetta heimsmeistaramót muni fara fram í Asíu eða Eyjaálfu.

Innan við klukkutíma seinna þá kom yfirlýsing frá knattspyrnusambandi Sádí Arabíu þar sem þeir gáfu það út að þeir myndu senda inn framboð um að halda HM 2034.

Knattspyrnusamband Asíu studdi líka strax við það framboð þrátt fyrir að vitað væri af áhuga Ástrala að halda heimsmeistaramótið.

Ástralar lýstu yfir óánægju sinni með það en hafa nú ákveðið að hætta við framboð sitt ekki síst af þeim sökum.

HM í fór fram í Katar á Arabíuskaganum fyrir tæpu ári síðan en halda varð heimsmeistaramótið á miðju tímabili í evrópska fótboltanum vegna mikils hita í Katar yfir sumartímann.

Sama verður upp á teningnum verði keppnin haldin í Sádí Arabíu. Keppnistímabilið 2034-35 verður því líklegast með stóru hléi í kringum jólamánuðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×