Innlent

Fór ráns­hendi um í­þrótta­hús og flúði á stolnum bíl

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn stal fjölda síma úr íþróttahúsi Þróttar og Ármanns að Engjavegi.
Maðurinn stal fjölda síma úr íþróttahúsi Þróttar og Ármanns að Engjavegi. Vísir/Árni

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur til þriggja mánaða fangelsisvistar fyrir þjófnaðar- og umferðarlagabrot framin sama daginn í október í fyrra. 

Maðurinn var ákærður fyrir þjófnað, með því að hafa, sunnudaginn 30. október 2022, í íþróttamiðstöðinni Laugabóli í Reykjavík, stolið 66° Norður úlpu að óþekktu verðmæti, tveimur Iphone 11 símum að ætluðu verðmæti samtals 220.000 krónur, Iphone 8 síma að ætluðu verðmæti 50 þúsund krónur, Iphone 8 síma að ætluðu verðmæti 60 þúsund krónur, Samsung Galaxy A21 síma að ætluðu verðmæti 35.000 krónur og Iphone XR að óþekktu verðmæti.

Þá var hann ákærður fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa sama dag tekið í heimildarleysi bifreið, þar sem henni hafði verið lagt á bifreiðastæði við Laugaból og ekið henni sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana-og fíkniefna.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp þann 20. október síðastliðinn en birtur í dag, segir að maðurinn hafi játað brot sín skýlaust og málið því tekið til dóms líkt og háttsemi hans væri sönnuð.

Við ákvörðun refsingar hans var litið til þess að maðurinn á nokkuð langan sakaferil að baki og hefur hlotið nokkra dóma fyrir sömu háttsemi. Þá voru brot hans framin fyrir uppkvaðningu dóms sem hann hlaut árið 2022. Þá var hann dæmdur til tveggja ára og átta mánaða fangelsisvistar og dómurinn nú því hegningarauki við þann dóm.

Þá var einnig litið til játningar hans honum til refsimildunar og honum dæmdur þriggja mánaða hegningarauki. Með vísan til brotaferils hans var ekki talið unnt að skilorðsbinda refsinguna. Þá var ekki talið nauðsynlegt að svipta hann ökuréttindum þar sem hann hefur þegar verið sviptur þeim ævilangt.

Loks var maðurinn dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 150 þúsund krónur, og aðrar 150 þúsund krónur í annan sakarkostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×