Alls eru 434 börn á bið eftir því að komast að á frístundaheimili í Reykjavík. Alls eru 263 börn komin með pláss að hluta en á bið eftir fullu plássi.
Búið er að manna 82,6 prósent grunnstöðugildi á frístundaheimilum eða sértækum félagsmiðstöðvum í Reykjavík. Enn á eftir að manna 52,3 grunnstöðugildi í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum í Reykjavík.
Flest börn eru á bið eftir því að komast að í frístundaheimili á frístundaheimilum sem tilheyra Austurmiðstöð í Reykjavík. Þar bíða alls 212 börn eftir plássi og 86 eftir því að hlutapláss þeirra verði að fullu plássi.
Í borgarhlutanum búa alls 5.030 grunnskólabörn og er því um að ræða 4,2 prósent þeirra. Um er að ræða eftirtalin frístundaheimili: Brosbær, Fjósið, Hvergiland, Kastali, Kátakot, Klapparholt, Regnbogaland, Simbað, Skógarsel, Stjörnuland, Tígrisbær, Töfrasel, Úlfabyggð og Víðisel.
Næsflest bíða eftir því að komast að á frístundaheimilum sem tilheyra Norðurmiðstöð. Um er að ræða eftirtalin frístundaheimili: Álftabær, Dalheimar, Glaðheimar, Krakkakot, Laugarsel, Neðstaland, Sólbúar og Vogasel. Þar bíða alls 94 börn eftir plássi en 111 eru komin með pláss hluta úr degi en bíða þess að fá fulla vistun. Alls búa 2.532 börn í borgarhlutanum og er því um að ræða 3,7 prósent barna sem eru á bið eftir plássi.
Alls eru svo 79 börn á bið eftir plássi á frístundaheimilum sem tilheyra Vesturmiðstöð og 37 sem eru komin með vistun að hluta. Um er að ræða eftirtalin frístundaheimili: Draumaland, Eldflaugin, Frostheimar, Halastjarnan, Selið, Skýjaborgir, Undraland. Alls búa 3.202 grunnskólabörn í borgarhlutanum og eru því 2,4 prósent þeirra á bið eftir plássi á frístundaheimili eða sértækri félagsmiðstöð.
Fæst börn bíða svo eftir plássi á frístundaheimilum sem tilheyra Suðurmiðstöð. Um er að ræða eftirtalin frístundaheimili: Álfheimar, Bakkasel, Hraunheimar, Regnboginn, Vinafell, Vinaheimar og Vinasel. Alls bíða 49 börn eftir plássi og eru 29 komin með vistun að hluta. Alls búa 3.828 börn í borgarhlutanum og eru því 1,2 prósent þeirra á bið eftir plássi.