Fótbolti

Fowler rekinn þrátt fyrir að hafa ekki tapað leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Robbie Fowler hefur stýrt fjórum liðum í fjórum löndum á þjálfaraferlinum.
Robbie Fowler hefur stýrt fjórum liðum í fjórum löndum á þjálfaraferlinum. getty/Rob Casey

Liverpool-goðsögnin Robbie Fowler hefur verið rekinn sem þjálfari Al-Qadsiah í Sádi-Arabíu þrátt fyrir að hafa náð fínum árangri með liðið.

Fowler tók við Al-Qadsiah í júní og hafði því ekki verið lengi í starfi þegar honum var sagt upp.

Fowler stýrði Al-Qadsiah í átta leikjum. Sex þeirra unnust og tveir enduðu með jafntefli. En þrátt fyrir að vera taplaus sem þjálfari liðsins var hann látinn taka pokann sinn.

Al-Qadsiah er í 2. sæti sádi-arabísku B-deildarinnar, einu stigi á eftir toppliði Al-Orobah. Á síðasta tímabili endaði Al-Qadsiah í 11. sæti B-deildarinnar.

Al-Qadsiah er búið að finna eftirmann Fowlers en það er Spánverjinn Míchel, fyrrverandi leikmaður Real Madrid.

Auk Al-Qadsiah hefur Fowler þjálfað Muangthong United í Taílandi, Brisbane Roar í Ástralíu og East Bengal á Indlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×