Innlent

Úrskurðuð í fjögurra vikna gæsluvarðhald vegna andlátsins í Bátavogi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Karlmaðurinn fannst látinn í fjölbýlishúsi við Bátavog 1-7 laugardagskvöldið 23. september.
Karlmaðurinn fannst látinn í fjölbýlishúsi við Bátavog 1-7 laugardagskvöldið 23. september. Vísir/Vilhelm

Kona á 42. aldursári var í dag úrskurðuð í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur. Konan var handtekin 23. september síðastliðinn í tengslum við andlát karlmanns á sextugsaldri í Bátavogi sama dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Konan verður í gæsluvarðhaldi til 21. nóvember í þágu rannsóknar lögreglu á andlátinu. 

Ævar Pálmi Pálmason, hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að rannsókninni miði áfram en hún sé mjög umfangsmikil. Marga hafi þurft að yfirheyra, fara yfir mikið af gögnum og enn er beðið lokaniðurstöðu úr krufningu. 

Fyrstu niðurstöður krufningar á hinum látna, sem var 58 ára gamall þegar hann lést og er íslenskur, benda til að honum hafi verið ráðinn bani. Konan, sem einnig er íslensk, hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hún var handtekin. 


Tengdar fréttir

Fara fram á fjögurra vikna gæslu­varð­hald

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun fara fram á að gæsluvarðhald yfir konu, sem handtekin var í tengslum við andlát karlmanns í Bátavogi í lok september, verði lengt um fjórar vikur. Gæsluvarðhaldskröfuna er nú verið að taka fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Áfram í gæslu eftir harmleikinn í Bátavogi

Krufning á 58 ára karlmanni sem fannst meðvitundarlaus í félagsíbúð við Bátavog í Reykjavík laugardagskvöldið 23. september bendir til þess að honum hafi verið ráðinn bani að sögn lögreglu. Kona á 42. aldursári var í dag úrskurðuð í tveggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald en hún var á vettvangi þegar lögreglu bar að garði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×