Fótbolti

Stjóri PSV straujaði Arnar á æfingu eftir að hafa boðið honum í mat daginn áður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Peter Bosz (fimmti frá vinstri í annarri röð) lék með Arnari og Bjarka Gunnlaugssyni hjá Feyenoord.
Peter Bosz (fimmti frá vinstri í annarri röð) lék með Arnari og Bjarka Gunnlaugssyni hjá Feyenoord. getty/VI Images

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings, sagði skemmtilega sögu af knattspyrnustjóra PSV Eindhoven í Meistaradeildarmörkunum.

PSV gerði 1-1 jafntefli við Lens á útivelli í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í gær. Johan Bakayoko kom hollensku bikarmeisturunum yfir á 54. mínútu en Elye Wahi jafnaði fyrir Frakkana tólf mínútum síðar og þar við sat.

Knattspyrnustjóri PSV er Peter Bosz sem Arnar þekkir frá því þeir léku saman með Feyenoord. Arnar rifjaði upp eftirminnileg samskipti sín við Bosz frá því fyrir þrjátíu árum í Meistaradeildarmörkunum.

„Hann var eldri leikmaður hjá Feyenoord þegar við Bjarki komum þangað. Hann var einn af þeim fáu sem gaf sig á tal við yngri leikmenn og bauð okkur heim til sín einu sinni og gaf okkur að borða. Hann hringdi líka í Adidas umboðið og við fengum samning hjá Adidas. Alveg geggjað og við bestu vinir Peters Bosz,“ sagði Arnar.

„Svo var æfing daginn eftir. Við heilsuðumst og svo byrjaði æfingin, ungir gegn gömlum. Hann straujaði mig í fyrstu tæklingu. Lærdómurinn af þessari sögu er að alvara og gaman og hann greindi þar á milli. Við héldum að hann væri besti vinur okkar en hann var bara að kenna okkur lexíu. Geggjaður náungi.“

Klippa: Meistaradeildarmörkin - Peter Bosz

Bosz, sem var öflugur miðjumaður á sínum tíma, lék með Feyenoord á árunum 1991-96 og varð hollenskur meistari með liðinu 1993 og bikarmeistari 1992, 1994 og 1995.

Hinn 59 ára Bosz tók við PSV í sumar. Liðið hefur unnið þrettán af sautján leikjum undir hans stjórn, gert þrjú jafntefli og aðeins tapað einum leik, gegn Arsenal í Meistaradeildinni.

Innslagið úr Meistaradeildarmörkunum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×