Erlent

Dóms­mála­ráð­herra Belgíu segir af sér vegna skot­á­rásarinnar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Vincent van Quickenborne dómsmálaráðherra Belgíu segist hafa gert mistök.
Vincent van Quickenborne dómsmálaráðherra Belgíu segist hafa gert mistök. EPA-EFE/REMKO DE WAAL

Dómsmálaráðherra Belgíu hefur ákveðið að segja af sér vegna skotárásar þar sem tveir Svíar voru skotnir til bana í Brussel í vikunni. Hann segist hafa gert mistök en árásarmaðurinn dvaldi ólöglega í Belgíu.

„Þetta eru risastór og óviðunandi mistök með hræðilegum afleiðingum og þau skrifast á mig. Dómari fylgdi gerðinni ekki eftir og málið var ekki afgreitt sem skyldi. Ég er ekki að reyna að afsaka mig með neinum hætti en ég held að mér beri skylda til að segja af mér,“ sagði Vincent Van Quickenborne dómsmálaráðherra þegar hann tilkynnti afsögn sína í gær.

Árásarmaðurinn var 45 ára gamall Túnisbúi sem dvaldi ólöglega í Belgíu. Hann mun hafa verið þekktur hjá lögreglu grunaður um ýmsa glæpi og mansal. Yfirvöld í Túnis höfðu gefið út handtökuskipun og óskuðu eftir framsali mannsins í fyrra. Belgísk yfirvöld sinntu ekki boðunum og segist dómsmálaráðherra bera á því ábyrgð. Deutsche Welle greinir frá.

Eins og fyrr segir létu tveir Svíar, fótboltaaðdáendur, lífið í árásinni og einn særðist til viðbótar. Hinir látnu voru eldri karlmenn, annar á sjötugsaldri og hinn á áttræðisaldri. Annar þeirra var búsettur í Stokkhólmi en hinn bjó erlendis.

Árásarmaðurinn hafði áður búið í Svíþjóð og meðal annars setið þar í fangelsi. Hann hafði meðal annars sótt um hæli í Noregi, Svíþjóð, Ítalíu og Belgíu en Belgar höfnuðu honum árið 2021 og átti hann því að hafa farið úr landi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×