Erlent

Martraðarástand í Súdan og níu þúsund fallnir

Samúel Karl Ólason skrifar
Milljónir hafa þurft að flýja heimili sín vegna átakanna í Súdan og að minnsta kosti 245 milljónir þurfa neyðaraðstoð.
Milljónir hafa þurft að flýja heimili sín vegna átakanna í Súdan og að minnsta kosti 245 milljónir þurfa neyðaraðstoð. AP/Sam Mednick

Allt að níu þúsund manns hafa fallið á undanförnum sex mánuðum í Súdan og mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur lýst mannúðarástandinu við martröð. Aðstæður almennings í Súdan hafa versnað til muna á undanförnum mánuðum.

Martin Griffiths, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í gær að í hálft ár hefði almenningur í Súdan þurft að lifa við blóðsúthellingar og hrylling. Sífellt bærust fregnir af nauðgunum og kynferðislegu ofbeldi.

Harðir bardagar hafa geisað í landinu frá því í apríl milli valdamikils vopnahóps sem kallast Rapid Support Forces, eða RSF, og súdanska hersins.

RSF-sveitirnar voru stofnaðar árið 2013 og eru leiddar af Mohamed Hamdan Daglo. Þær tóku þátt í bardögum gegn uppreisnarmönnum í Darfur en þá voru meðlimir RSF sakaðir um ýmis ódæði og þjóðernishreinsanir. RSF hefur stækkað síðan þá og komið að átökunum í Jemen og Líbíu.

Árið 2021 gekk Daglo til liðs við herforingjann Abdel Fattah al-Burhan og tóku þeir völdin í landinu og hafa þeir deilt völdum. Fyrr á þessu ári stóð til að innleiða RSF í súdanska herinn en Daglo óttaðist að missa öll sín áhrif og völd með því að flytja sveitir sínar undir stjórn al-Burhan.

Upp úr því hófust blóðug átök í apríl og voru þau lengi bundin við Khartoum, höfuðborg landsins. Nú virðist barist í öllum héruðum landsins og þar á meðal Darfur. Fylkingar hafa að miklu leyti stillst upp eftir þjóðarbrotum.

Milljónir hafa þurft að flýja heimili sín vegna átakanna. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum eru fleiri en 4,5 milljónir manna á vergangi innan landamæra Súdan og rúm milljón manna hefur flúið land. Áætlað er að um 25 milljónir manna þurfi á neyðaraðstoð að halda.

Nítján milljónir barna sækja ekki skóla vegna átakanna og heilbrigðiskerfi landsins er að hruni komið. Þar að auki er kólera í dreifingu í Karthoum og nærliggjandi héruðum.

Griffiths segir mikla þörf á fjármunum til að mæta þörf ­fólks í Súdan en einnig þurfi að bæta öryggisástand hjálparstarfsmanna. Minnst 45 innlendir hjálparstarfsmenn SÞ hafa verið myrtir eða handteknir frá því í apríl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×