Erlent

Mis­vísandi fréttir um opnun landa­mæranna milli Gasa og Egypta­lands

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Leitað að fólki í húsarústum eftir loftárásir Ísraela á Gasa.
Leitað að fólki í húsarústum eftir loftárásir Ísraela á Gasa. AP/Hatem Ali

Rafah-landamærin milli Gasa og Egyptalands verða opnuð aftur nú í morgunsárið til að hleypa mannúðaraðstoð inn til Gasa. Frá þessu greindi Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, eftir fund með Abdel Fattah al-Sisi, forseta Egyptalands.

Samkvæmt bandarískum miðlum verða landamærin opin í nokkrar klukkustundir. Bifreiðar með hjálpargögn eru þegar sagðar bíða í röðum eftir að komast yfir og þá er gert ráð fyrir því að erlendir ríkisborgarar muni geta farið yfir til Egyptalands.

Staðan virðist þó óljós en fregnir hafa borist af því að skrifstofa Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hafi borið til baka staðhæfingar heimildarmanna Reuters um tímabundið vopnahlé í suðurhluta Gasa, sem Ísraelar, Egyptar og Bandaríkjamenn voru sagðir hafa náð saman um.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í viðtali við 60 Minutes sem birt var í gær að það þyrfti að tortíma Hamas en á sama tíma þyrfti að varða leið að palestínsku ríki. Hann sagði að það yrðu mikil mistök að hernema Gasa.

Biden sagði Hamas-liða „gungur“ sem feldu sig á bak við almenna borgara. Þá sagðist hann þess fullviss að Ísraelsmenn myndu fara að alþjóðalögum í aðgerðum sínum gegn Hamas.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×