Fótbolti

Háttsettur aðili innan FIFA handtekinn fyrir spillingu og mútuþægni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Du Zhaocai og Gianni Infantino, forseti FIFA, undirrita viljayfirlýsingu vegna uppbyggingar á kínverskum fótbolta árið 2019.
Du Zhaocai og Gianni Infantino, forseti FIFA, undirrita viljayfirlýsingu vegna uppbyggingar á kínverskum fótbolta árið 2019. FIFA

Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur hinum kínverska Du Zhaocai, fyrrum varaforseta asíska knattspyrnusambandsins, vegna spillingar og meintrar mútuþægni.

Zhaocai var einnig varaforseti kínversku Ólympíunefndarinnar og átti sæti í framkvæmdaráði Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA (e. FIFA Council). Framkvæmdaráðið er leitt af forseta FIFA og kosið af þingi sambandsins. Það er megin stofnunin innan sambandsins hvað ákvarðanatöku og stefnumótun varðar.

Handtökuskipunin er gefin út aðeins örfáum dögum eftir að Zhaocai var rekinn úr kínverska kommúnistaflokknum en hann var háttsettur í íþróttamálaráðuneyti Kína.

„Ríkissaksóknari Kína hefur fyrirskipað handtöku á Du Zhaocai vegna gruns um mútuþægni,“ segir í frétt Xinhua, ríkisfréttastofu Kína. „Málið hefur verið flutt til saksóknara til skoðunar og ákæru eftir rannsókn á málinu lauk.“

Mál Zhaocai er það nýjasta í röð málaferla og veigamikillar rannsóknar á knattspyrnustjórnendum í landinu. Yfir tólf manns sem starfa í fótboltageiranum hefur verið til rannsóknar í Kína síðustu mánuði.

Þar á meðal er Liu Jun, stjórnarformaður kínversku Ofurdeildarinnar, efstu deildar þar í landi og Li Tie, fyrrum landsliðsþjálfari Kína, sem lék áður sem atvinnumaður með Everton og Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni. Li Tie hefur verið ákærður fyrir meinta spillingu auk annarra glæpa við störf sín.

Kínverska landsliðið er í 80. sæti heimslista FIFA og hefur aðeins einu sinni komist á heimsmeistaramót, árið 2002, þar sem liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni og féll úr leik.

Li Tie í leik með Everton gegn Manchester United árið 2002. Hann er annað fórnarlamb veigamikillar rannsóknar kínverskra stjórnvalda á spillingu innan fótbolta í ríkinu.Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×