Erlent

Lík enn að finnast á víð og dreif í þorpum og bæjum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maður liggur látinn á jörðinni eftir árás Hamas á Kfar Aza.
Maður liggur látinn á jörðinni eftir árás Hamas á Kfar Aza. AP/Hassan Eslaiah

Hermenn, viðbragðsaðilar og íbúar í Ísrael eru enn að finna lík á víð og dreif í þorpum og bæjum við landamörkin að Gaza, eftir árás Hamas á laugardag. Þá er verið að safna myndskeiðum úr öryggismyndavélum og íbúum, sem sýna hvernig árásin fór fram.

Fjöldi látinna í árásunum stendur í 1.200.

Á myndum og myndskeiðum má sjá hvernig fólk var skotið niður á heimilum sínum, í bænum, á vegum og á tónlistarhátíð. Á Nova-útihátíðinni voru yfir hundrað drepnir og á myndskeiði sem New York Times hefur yfirfarið sjást Hamas-liðar ræna konu og aka með hana burt á mótorhjóli.

Blaðamenn New York Times og BBC hafa fengið að heimsækja Kfar Aza-samfélagið þar sem talið er að yfir hundrað manns hafi verið drepnir, þeirra á meðal ungabörn og foreldrar. Sumir af þeim sem björguðust voru með brunasár eftir Molotov-kokteila.

Blaðamaður New York Times segist hafa séð lík á vegum og í görðum, á heimilum og á öðrum stöðum. „Þetta er ekki stríð eða vígvöllur; þetta er blóðbað,“ segir hershöfðinginn Itai Veruv. „Þetta er eitthvað sem ég hef aldrei séð áður, þetta er líkara kynþáttahreinsun eins og afar okkar og ömmur upplifðu.“

Í Sderot fundust sjö lík við strætóstoppistöð og í Nir Oz tóku vígamennirnir upp 30 mínútna myndskeið, sem sýnir meðal annars sex blóðug lík liggja á gólfi herbergis. Einn mannanna sést skjóta á líkin. Þegar íbúar söfnuðust saman eftir árásirnar, áttuðu þeir sig á því að það vantaði um helming þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×