Innlent

Braust inn í grunnskóla og flúði á rafhlaupahjóli

Jón Þór Stefánsson skrifar
Maðurinn sem braust inn í grunnskólann var farinn áður en lögregla kom á vettvang. Myndin er úr safni.
Maðurinn sem braust inn í grunnskólann var farinn áður en lögregla kom á vettvang. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Í nótt braust einstaklingur inn í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þegar lögreglu bar að garði var einstaklingurinn farinn af vettvangi á rafhlaupahjóli.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það er lögreglustöð 2 sem tilkynnir um innbrotið og því er hægt að leiða að því líkur að atvikið hafi átt sér stað í Hafnarfirði eða Garðabæ.

Í Múlahverfinu var lögreglu tilkynnt um umferðaróhapp. Þrír aðilar voru í bílnum sem lenti í óhappinu, en enginn þeirra viðurkenndi að hafa verið að aka bifreiðinni. Allir voru undir áhrifum áfengis. Þeir voru handteknir og fluttir á lögreglustöð.

Strætóbílstjóri óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna farþega sem var ölvaður og ógnandi, en farþeginn yfirgaf vagninn áður en aðstoð lögreglu varð þörf.

Lögregla var kölluð til að hóteli í miðbænum vegna einstaklings sem svaf ölvunarsvefni. Hann var vakinn og vísað á brott.

Einstaklingur var handtekinn í miðborginni fyrir brot á vopnalögum, en hann var með öxi meðferðis.

Annar einstaklingur var handtekinn í miðbænum. Sá var með ólæti og ógnandi tilburði við dyraverði og vegfarendur. Þá neitaði hann að gefa upp nafn og kennitölu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×