Erlent

Trans ráð­herra segir um­mæli Sunak ýta undir for­dóma og hatur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Petra De Sutter tók við embætti aðstoðarforsætisráðherra árið 2020.
Petra De Sutter tók við embætti aðstoðarforsætisráðherra árið 2020.

Aðstoðarforsætisráðherra Belgíu, sem er trans kona, hefur hvatt Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, til að ganga ekki í lið með raunverulegum bullum. Tilefnið eru ummæli sem Sunak lét falla á þingi Íhaldsflokksins fyrr í vikunni.

„Við eigum ekki að láta ata okkur í að trúa því að fólk geti hverið hvers kyns sem það óskar sér,“ sagði forsætisráðherrann við góðar undirtektir viðstaddra. „Það getur það ekki. Karl er karl og kona er kona. Það er bara almenn skynsemi,“ sagði hann.

Ummælin lét Sunak falla á sama tíma og greint var frá því að haturglæpir gegn trans fólki á Englandi og í Wales hefðu aldrei verið fleiri. Þá sagði innanríkisráðuneytið í skýrslu sinni um málið að aukninguna mætti mögulega að einhverju leiti rekja til ummæla stjórnmálamanna og orðræðu í fjölmiðlum.

Petra De Sutter, fyrsti trans ráðherra Evrópu að því er vitað er, sagði orð Sunak meiðandi og að þau hefðu validið gríðarlegum vonbrigðum.

„Þessi ummæli ýta undir trans fóbíu og stofna lífum fólks um allan heim í hættu,“ sagði De Sutter á samfélagsmiðlum. „Trans konur eru konur. Og á engan hátt ógn við aðra. Ekki ganga til liðs við hinar raunverulegu bullur Rishi Sunak.“

De Sutter, sem er prófessor í kvensjúkdómalækningum, tók við embætti aðstoðarforsætisráðherra Belgíu árið 2020.

Sunak var ekki einn Íhaldsmanna um að vega að trans fólki á áðurnefndu þingi en Suella Braverman innanríkisráðherra gagnrýndi „kynjahugmyndafræði“. Á sama tíma var flokksmanni vísað af fundinum eftir að hann sakaði ráðherrann um fordóma gegn trans fólki og hinsegin fólki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×