Innlent

Í­trekar af­stöðu sína gegn því að svipta fólk heil­brigðis­þjónustu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Alma Möller er landlæknir.
Alma Möller er landlæknir. Vísir/Vilhelm

Landlæknisembættið hefur ítrekað þá afstöðu sína að það sé óásættanlegt að svipta fólk réttinum til heilbrigðisþjónustu og að þjónustan eigi að vera undanskilin þjónustusviptingu einstaklinga sem hafa fengið synjun á umsókn um alþjóðlega vernd.

Afstaða embættisins er skýrð í umsögn um frumvarp Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þingmanns Pírata, um afnám þjónustusviptingar.

Í umsögninni segir meðal annars að það sé afstaða embættisins að öll nauðsynleg heilbrigðisþjónusta eigi að vera undanskilin þjónustusviptingu, enda eigi allir að njóta þeirra grundvallarmannréttinda að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Landlæknisembætti segir að þrátt fyrir undanþáguákvæði er varða barnshafandi, alvarlega veika og fatlaða einstaklinga gætu komið upp aðstæður þar sem fólk yrði svipt réttinum til heilbrigðisþjónstu.

„Sem fyrr telur embættið slíkt vera óásættanlegt. Þau sem ekki falla undir fyrrnefndar undanþágur geta engu að síður glímt við sjúkdóma og heilsufarsvandamál sem nauðsynlegt er að bregðast við og í vissum tilfellum getur rof á meðferð haft slæmar afleiðingar. Umræddur hópur er nú þegar í sérstaklega viðkvæmri stöðu og frekari jaðarsetning gagnvart heilbrigðisþjónustu er sérlega varhugaverð. Þá getur rof á meðferð við langvinnum sjúkdómum haft alvarlegar afleiðingar,“ segir í umsögninni.

Öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé einnig mikilvægt þegar kemur að ákveðnum öryggisþáttum, til að mynda hvað varðar því að aftra útbreiðslu smitsjúkdóma og að veita þeim sem glíma við geðraskanir þjónustu þannig að þeir séu hvorki hættulegir sjálfum sér né öðrum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×