Fyrir helgi greindum við frá því að heilbrigðisráðherra ætli að setja reglur um notkun fylliefna en í Kompás sem sýndur var fyrir viku var fjallað um hætturnar sem geta falist í því að hér á landi gilda engar reglur um hverjir mega sprauta fylliefni í varir eða andlit annarra.
Landlæknir hefur ekki eftirlit með þeim ófaglærðu sem sprauta efnunum og hafa læknar sagt markaðinn stjórnlausan.
Lyfjastofnun hefur þó eftirlit með lækningatækjum og segir forstjórinn fylliefni flokkast sem slík. Stofnunin getur því upp að vissu marki haft eftirlit með efnunum sjálfum þó að hver sem er megi sprauta þeim í aðra.
„Við hvetjum fólk til að tilkynna til okkar ef fylliefni valda þeim vandræðum. Þau eru lækningatæki og þá er hægt að tilkynna þau sem atvik til okkar,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Í Kompás var greint frá því að lyf sem notað er til að leysa upp fylliefni sé ólöglega í umferð á stofum þar sem ekki er starfandi læknir þrátt fyrir að mjög strangar reglur gildi um að læknar megi einir nota það. Þá eru einnig dæmi um að boðið sé ólöglega upp á bótox.
„Við höfum svo sem ekki fengið tilkynningar til okkar um þetta. Ef fólk er að flytja inn lyf með ólöglegum hætti og nota á þriðja aðila þá á að tilkynna það til lögreglu. Og ef það verður þess áskynja að verið sé að nota lyfseðilsskyld lyf að tilkynna til okkar ef þeir lenda í einhverjum vanda með það því þá er það í sjálfu sér aukaverkanir af lyfinu ef það koma fram einhverjar verkanir sem eiga ekki að vera.“
Aðspurð hvort starfsmenn Lyfjastofnunar þurfi auknar heimildir til að geta sinnt eftirlitsskyldu stofnunarinnar betur segir hún frekar þörf á auknu fjármagni.
„Það er ekki mikið fjármagn í því að fara í eftirlit með lækningatækjum. Þetta er rosalega stór og víðtækur markaður, alveg frá fylliefnum í stór lækningatæki þannig þetta er mjög stór og víðfemur markaður.“