Í Kompás sem sýndur var í vikunni er fjallað um hætturnar sem geta falist í því að hér á landi gilda engar reglur um hverjir mega sprauta fylliefni í varir eða andlit annarra. Læknar segjast ítrekað og í áraraðir hafa kallað eftir reglum um efnin, án árangurs.
Heilbrigðisráðherra segist fagna umræðunni, lítur málið alvarlegum augum og ætlar að setja reglur um notkun fylliefna. Hann segir að í lögum um lækningatæki sé lagastoð til að setja reglugerð um notkun fylliefna og að það verði fyrsta skref.
„Ég er búin að fyrirskipa það í ráðuneytinu í framhaldinu að fara hratt í það að nýta reglugerðarheimildina sem er í lögum um lækningatæki samhliða því að horfa til laga um heilbrigðisstarfsmenn. Þar hefur þá Embætti landlæknis um leið eftirlit með þeirri starfsemi og þar myndi þá koma fyrir hverjum er heimilað að nýta þessi efni og hvernig og hafa þá þekkingu til. Það er það sem vantar,“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Boðar einnig heildarlöggjöf og lítur til Svía
Hann segist vilja vinna málið hratt og að reglugerð sé sú leið til að bregðast við með skjótum hætti. Vinna sé þegar hafin í ráðuneytinu.
„Og svo samhliða hef ég beðið um að við horfum til heildarlöggjafar eins og þá leið sem Svíar hafa farið en það mun taka aðeins lengri tíma.“
Innan tíðar reiknar hann með að einungis læknar, hjúkrunarfræðingar með handleiðslu læknis og tannlæknar muni koma til með að mega nota fylliefni líkt og í nágrannaríkjunum.
Og þetta mun gerast? „Já.“
Hvenær? „Ég get ekki dagsett það nákvæmlega en þetta þarf að gerast hratt, ég geri mér grein fyrir því en í dögum og vikum get ég ekki sagt nánar til um. En við erum komin á þennan stað að setja reglurnar.“
Gerist þetta á þessu ári? „Ég vona það.“