Fótbolti

Andri Lucas eigi það skilið að vera í landsliðinu á ný

Aron Guðmundsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen fagnar einu marka sinna með Lyngby á tímabilinu
Andri Lucas Guðjohnsen fagnar einu marka sinna með Lyngby á tímabilinu Vísir/Getty

Åge Hareide, lands­liðs­­þjálfari ís­­lenska karla­lands­liðsins í fót­­bolta, segir Andra Lucas Guð­john­sen, sóknar­mann danska úr­vals­deildar­fé­lagsins Lyng­by eiga það ræki­lega skilið að vera í lands­liðs­hópi Ís­lands fyrir komandi verk­efni í undan­keppni EM 2024. Andri Lucas hefur farið með himin­skautum í Dan­mörku upp á síð­kastið.

Andri hefur leikið lykil­hlut­verk með Lyng­by á yfir­standandi tíma­bili, skorað sex mörk og gefið eina stoð­sendingu í átta leikjum. Frammi­staða sem hefur unnið honum inn sæti í ís­lenska lands­liðinu á nýjan leik.

„Ég ræddi við Andra Lucas fyrr í árr þegar að hann var hjá Norr­köping fyrr á árinu. Ég sagði við hann, að hann yrði að fara spila fleiri mínútur. Hann þyrfti að gera það á þeim aldri sem hann er á til þess að þróa sinn leik,“ sagði Åge Hareide á blaða­manna­fundi Ís­lands núna í morgun.

Andri Lucas fór til danska úr­vals­deildar­fé­lagsins Lyng­by á láni þar sem að hann hefur blómstrað undir stjórn Freys Alexanders­sonar, þjálfara liðsins.

„Hann hefur verið að standa sig mjög vel núna með Lyng­by. Spilar mikið og skorar fullt af mörkum. Hann legur hart að sér og getur klárað færin. Hann á það skilið að vera í þessum lands­liðs­hópi. Hann hefur unnið sér það inn með frammi­stöðum sínum.“

Andri Lucas á að baki fimm­tán A-lands­leiki fyrir Ís­lands hönd og hefur í þeim leikjum skorað 4 mörk. Þá á hann að baki lands­leiki fyrir öll yngri lands­lið Ís­lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×