Fótbolti

Braga kom til baka í Berlin og Real Sociedad kláraði dæmið í fyrri hálfleik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Andre Castro var hetja Braga í dag.
Andre Castro var hetja Braga í dag. Maja Hitij/Getty Images

Önnur umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu hófst í dag með tveimur leikjum. Portúgalska liðið Braga vann ótrúlegan 2-3 endurkomusigur gegn Union Berlin og Real Sociedad vann 0-2 sigur gegn FC Salzburg.

Heimamenn í Union Berlin byrjuðu af miklum krafti gegn Braga og Robin Gosens kom boltanum í netið fyrir liðið strax á fjórðu mínútu. Eftir skoðun myndbandsdómara var markið þó dæmt af, en Sheraldo Becker kom Berlínarliðinu þó yfir með löglegu marki eftir hálftíma leik.

Becker var svo aftur á ferðinni sjö mínútum síðar þegar hann tvöfaldaði forystu heimamanna.

Gestirnir frá Portúgal lögðu þó ekki árar í bát og á 41. mínútu minnkaði Sikou Niakate muninn fyrir Braga og staðan því 2-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Bruma jafnaði svo metin fyrir gestina á 51. mínútu með frábæru marki áður en varamaðurinn Andre Castro tryggði Braga dramatískan sigur með marki í uppbótartíma og niðurstaðan því 2-3 sigur Braga.

Braga er nú með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina í C-riðli Meistaradeildar Evrópu, líkt og Napoli og Real Madrid sem mætast síðar í kvöld. Union Berlin er hins vegar enn án stiga.

Þá vann Real Sociedad góðan 0-2 sigur gegn FC Salzburg á sama tíma þar sem Mikel Oyarzabal og Brais Mendez skoruðu mörk gestanna í fyrri hálfleik.

Real Sociedad því með fjögur stig á toppi D-riðils, einu stigi meira en Salzburg sem situr í öðru sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×