Innlent

„Það eina sem hélt mér fastri var bíl­beltið“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Þórhildur bendir á að það sé ekki nema eitt stutt handtak sem þurfi til að setja á sig bílbelti, en þetta eina handtak geti skilið á milli lífs og dauða.
Þórhildur bendir á að það sé ekki nema eitt stutt handtak sem þurfi til að setja á sig bílbelti, en þetta eina handtak geti skilið á milli lífs og dauða. Samsett

„Ég horfi öðrum augum á lífið eftir þetta allt. Það er ótrúlegt að það þurfi ekki nema bara eitt augnablik og þá breytist lífið alveg. Allt í einu var mér bara kippt úr úr lífinu eins og ég þekkti það,“ segir hin tvítuga Þórhildur Björg Þorsteinsdóttir en hún lenti í alvarlegri bílveltu á Krýsuvíkurvegi fyrir tæpu ári og hefur síðan þá gengið í gegnum erfitt bataferli.

Þórhildur segist vona að hennar frásögn muni vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi bílbelta- og hversu brýnt það sé að gæta öryggis í umferðinni.

Fóru fimm veltur og enduðu á hvolfi

Seint að kvöldi þann 11. september í fyrra, að lokinni kvöldvakt á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu, fór Þórhildur á rúntinn ásamt þremur vinum sínum. Þau keyrðu um, hlustuðu á tónlist og skemmtu sér vel. Lengst af var Þórhildur ekki í belti.

„Við rúntuðum niður í miðbæ og ákváðum síðan keyra upp að Hvaleyrarvatni. Það er ekki búið að malbika allt þar og sumstaðar er malarvegur, og það var fyrst þegar við komum þangað að ég hugsaði mér að ég þyrfti að vera í bílbelti. Við ákváðum síðan að keyra til Krýsuvíkur.“

Slysið átti sér stað á Krýsuvíkurvegi, við Kleifarvatn.

„Rétt við sandinn er beygja sem er merkt með hámarkshraða upp að 60 kílómetra á klukkustund. Um það bil 200 metrum eftir það skilti þá kemur beygja. Einhverra hluta vegna náðum við ekki beygjunni og bílinn byrjar að renna út af til vinstri og stefnir beint á malbikaðan kant sem er fyrir bíla til að komast niður á sandinn. Það eru tveir malbikaðir kantar en seinni kanturinn, sem við lendum svo á, er töluvert hærri og grófari en sá fyrri. Við skellum á kantinn, bílinn flýgur þrjá metra upp í loftið, fer fimm veltur og endar síðan á hvolfi.“

Þórhildur missti meðvitund í þriðju veltunni.

„Þegar ég vaknaði var ég ein inni í bílnum, strákarnir höfðu náð að koma sér út. Ég hékk á hvolfi, í beltinu. Ég man að það fyrsta sem ég hugsaði var að það væri eins gott að ég væri í belti.

Ég man líka að ég fékk líka rosalega mikla drukknunartilfinningu. Það var kælivökvabrúsi í skottinu sem opnaðist við veltuna og kælivökvinn helltist yfir mig og annan vin minn. Ég man að ég var hangandi þarna í lausu lofti og vinur minn kemur síðan og reynir að losa mig úr beltinu. Við komust að lokum út úr bílnum."

Hún segir aðstæðurnar hafa verið nokkuð súrrealískar.

„Við stóðum þarna á sandinum við Kleifarvatnið, á risastóru svæði og það var ekkert í kring. Það var alveg heiðskýrt. Tunglið lýsti allt upp og það var algjör dauðaþögn. Það eina sem heyrðist var eitthvað brak í bílnum. Þetta var eins og vera á annarri plánetu. 

Ég man að ég horfði yfir Kleifarvatnið, sá hesta í haga hinum megin og fór svo bara í eitthvað sjokk og bullaði eitthvað. Ég man að þegar við vorum að bíða eftir sjúkrabílinn og löggan kæmu, það var ískalt og við sátum þarna og ég var öll út í sandi og angandi af kælivökva. Ég var í marga daga eftir á að ná sandinum úr hárinu á mér."

Lögregla og sjúkralið mættu á staðinn og voru Þórhildur og vinir hennar flutt á bráðamóttöku. Þórhildur og vinur hennar sem sat aftur í með henni reyndust vera með mestu áverkana, en í veltunni hafði vinur hennar fengið í hausinn borvél sem var í bílnum. Ökumaður og farþeginn fremst sluppu betur vegna loftpúðanna í bílnum. Þórhildur var send í röntgen- og sneiðmyndatöku og reyndist vera með taugaáverka á öxl og hendi. Þremur dögum eftir slysið leitaði Þórhildur á síðdegisvakt á heilsugæslunni. Þar kom í ljós að hún hefði hlotið annars stigs heilahristing við slysið.

Þessi mynd var tekin á vettvangi slyssins og eins og sjá má er bílinn í henglum.Aðsend

„Það hafði ekkert verið kannað á bráðamóttökunni hvort ég gæti hafa fengið heilahristing, líklega af því að ég bar mig alveg frekar vel. En mér leið svo skringilega, mér var óglatt og ég var með sjóntruflanir og ég mundi ekkert og gat engan veginn hugsað skýrt.”

Líkamlegar og andlegar afleiðingar

Þórhildur hefur þurft að takast á við afleiðingar slyssins undanfarið ár, meðal annars með hjálp sjúkraþjálfara. Hún er enn að kljást við höfuðáverka og taugaáverka og hefur mjög litla tilfinningu í vinstri hendinni.

Þórhildur á langt bataferli fyrir höndum.Vísir/Vilhelm

„Á slæmum dögum á ég erfitt með að pikka á lyklaborðið á tölvunni og ég á erfitt með allskonar fínhreyfingar, og snöggar hreyfingar. Ég á líka mjög erfitt með að keyra, sérstaklega þegar það er dimmt.“

Þórhildur er í námi og starfar meðfram því á Hrafnistu en það hefur reynst henni erfitt að sinna vinnu og skóla af fullum krafti. 

Afleiðingarnar af slysinu eru ekki síður andlegar.

„Ég er búin að vera hjá sálfræðingi, og ég er nýlega byrjuð að fara í tíma hjá áfallasérfræðingi. Ég fæ oft martraðir tengdar þessu, og ég á líka erfitt með að vera með öðrum fólki í bíl. Það eru allskonar „triggerar.“

Þórhildur var að eigin sögn fullheilbrigð og virk fyrir slysið og sinnti hestamennsku af kappi. Það var þess vegna erfitt að geta ekki lengur sinnt daglegum störfum af fullum krafti. Hún veit ekki hvenær og hvort hún mun öðlast fulla líkamlega virkni á ný, en hún er þó staðráðin í að komast aftur á ról, hægt og rólega. Hún segist vera afar þakklát fyrir stuðning fjölskyldu og vina, sem hafi ávallt verið til staðar og hvatt hana áfram undanfarið ár.

„Ég er byrjuð að fara aftur upp í hesthús og þó að ég geti ekki gert hlutina eins og áður þá finn ég að það gerir mér gott bara að vera í kringum hestana. Ég kem alltaf glöð heim og endurnærð.“

Eitt handtak getur skilið á milli lífs og dauða

„Læknarnir á bráðamóttökunni sögðu að eina ástæðan fyrir því að við værum á lífi væri sú að við vorum í belti. Það situr ennþá í mér. Ég viðurkenni það alveg að þegar ég var nýkomin með bílpróf þá var ég oft ekkert alltaf að hafa fyrir því að setja á mig bílbeltið, mér fannst rosalega geggjað að vera komin með bílpróf og vera á flottum bíl, og ég var bara kærulaus með þetta. Þetta er allt annað í dag. Ef ég er með öðrum í bíl þá hreinlega neita ég að leggja af stað fyrr en allir eru komnir í belti, ég er örugglega alveg hrikalega pirrandi með þetta!” segir Þórhildur og hlær.

„Mig langar mikið að biðla til foreldra þarna úti að ræða við börnin sín um bílbelti, sérstaklega unglingana sína sem eru nýkomnir með bílpróf. Ég held að það sé bara ekki hægt að hamra nógu mikið á því hvað það er mikilvægt að setja alltaf á sig belti, hvort sem maður er að skjótast út í búð eða keyra út á land. Alltaf þegar ég sé fréttir um bílslys í dag þá fæ ég hnút í magann.“

Þórhildur segist ekki geta hugsað þá hugsun til enda hvað hefði gerst ef hún hefði ekki verið í bílbelti þetta örlagaríka kvöld.Vísir/Vilhelm

Þórhildur bendir á að það sé ekki nema eitt stutt handtak sem þurfi til að setja á sig bílbelti, en þetta eina handtak geti engu að síður skilið á milli lífs og dauða.

„Það situr ennþá í mér þetta augnablik þar sem ég sat í bílnum hjá Hvaleyrarvatni og hugsaði með mér að ég þyrfti að fara í bílbelti. Ég á aldrei eftir að gleyma þessu mómenti; þegar ég hékk á hvolfi þarna í bílnum og fann að það eina sem hélt mér fastri var bílbeltið.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×