Fótbolti

PSG með sína verstu byrjun síðan Katararnir keyptu félagið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mbappe liggur í grasinu í leiknum í kvöld.
Mbappe liggur í grasinu í leiknum í kvöld. Vísir/Getty

PSG gerði markalaust jafntefli við Clermont í frönsku úrvalsdeildinni. Þeir hafa nú náð í 12 stig í fyrstu sjö leikjum sínum, sem er versta byrjun félagsins á tímabili frá því tímabilið 2010–11. 

Luis Enrique tók við liðinu í sumar og hefur nú stýrt þeim til sinnar verstu byrjunar síðan Nasser Al-Khelaifi keypti félagið árið 2010. 

Aðdáendur PSG gátu glaðst yfir endurkomu Kylian Mbappe í þessum leik, en leikmaðurinn fór meiddur af velli í síðasta leik gegn Marseille. Frakkinn átti þó ekki sinn besta dag og fékk gult spjald fyrir leikaraskap. 

Mory Diaw átti sannkallaðan stórleik í marki Clermont, varði virkilega vel í nokkur skipti og tryggði stig fyrir sitt lið. 

PSG hefur verið í alls kyns vandræðum, bæði innan og utan vallar. Liðið hefur misst frá sér stjörnur á borð við Neymar og Lionel Messi, svo bárust fréttir af því nýlega að nýjasta stjórstjarna þeirra sé ósátt og vilji burt. 

Auk þess hefur eigandi félagsins staðið í opinberum orðaskiptum við leikmenn félagsins. Samningaviðræður við Kylian Mbappe hafa gengið illa, Lionel Messi var ósáttur við móttökurnar sem hann fékk eftir HM í Katar og PSG hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir leikmannasölur sínar til Katar.

PSG situr þrátt fyrir erfiða byrjun í 3. sæti frönsku deildarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×