Fótbolti

Eto'o til rannsóknar hjá lögreglunni vegna hagræðingar úrslita

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samuel Eto'o er einn besti fótboltamaður Afríku fyrr og síðar.
Samuel Eto'o er einn besti fótboltamaður Afríku fyrr og síðar. getty/Stephen McCarthy

Fótboltagoðsögnin Samuel Eto'o er til rannsóknar hjá kamerúnsku lögreglunni vegna gruns um hagræðingu úrslita.

Eto'o, sem er forseti kamerúnska knattspyrnusambandsins, er grunaður um að hafa átt þátt í að hagræða úrslitum í B-deildinni í Kamerún.

Í upptöku sem hefur verið gerð opinber heyrðist Eto'o tala við forseta Victoria United, Valentine Nkwain, þar sem hann lofaði því að koma liðinu upp í efstu deild með því að hagræða úrslitum leikja.

„Það eru hlutir sem við getum gert en þú verður að fara mjög varlega,“ á Eto'o að hafa sagt við Nkwain.

„Ekki hafa áhyggjur, við færum ykkur þrjú stig og setjum dómarann í bann. Liðið verður að fara upp um deild. Það er markmiðið. Þetta er okkar samband. Victoria United kemst upp í efstu deild.“

Victoria United komst upp um deild. Þrátt fyrir það hafna Eto'o og Nkwain því að brögð hafi verið í tafli.

Kamerúnska lögreglan er með málið til rannsóknar. Auk þess rannsakar hún frekari ásakanir um spillingu í forsetatíð Eto's hjá kamerúnska knattspyrnusambandinu. Hann var kosinn forseti þess í desember 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×